Fótbolti

Spilar heima á Tenerife í kvöld og bað um 45 miða

Sindri Sverrisson skrifar
Pedri er fæddur og uppalinn á eyjunni Tenerife.
Pedri er fæddur og uppalinn á eyjunni Tenerife. Getty/Robbie Jay Barratt

Það gerist ekki oft að spænska karlalandsliðið í fótbolta spili leik á Íslendinganýlendunni Tenerife en þannig verður það í kvöld. Það gerir leikinn sérstaklega spennandi fyrir einn af leikmönnum spænska liðsins.

Spánn tekur á móti Sviss í kvöld í lokaumferð Þjóðadeildarinnar. Leikurinn hefur litla þýðingu þar sem Spánverjar hafa þegar tryggt sér efsta sæti 4. riðils A-deildarinnar, og Svisslendingar eru fallnir niður í B-deild.

Leikurinn hefur hins vegar mikla þýðingu fyrir hinn 21 árs gamla Pedri, stórstjörnuna úr Barcelona sem leikur sinn þrítugasta A-landsleik í kvöld, og reyndar fleiri leikmenn spænska landsliðsins.

Pedri er nefnilega fæddur á Tenerife og æfði með liðinu Tegueste, og hóf meistaraflokksferilinn með Las Palmas sem einnig er á Kanaríeyjum. Óhætt er að segja að Pedri hafi verið vinsæll á opinni æfingu spænska liðsins, eins og sjá má hér að neðan.

Pedri viðurkennir að hann hlakki sérstaklega til kvöldsins og að fá að spila á Tenerife.

„Þetta fyllir mann stolti, og einnig Ayoze Perez og Yeremy Pino [báðir frá Kanaríeyjum]. Þetta verður mjög sérstakur leikur. Það er langt síðan að landsliðið hefur verið hérna svo að vonandi getum við gefið stuðningsmönnunum eitthvað til að gleðjast yfir. Ég er afskaplega ánægður með að vera hér,“ sagði Pedri á blaðamannafundi í gær.

Hann hefur óneitanlega orðið var við mikinn áhuga hjá vinum og kunningjum:

„Ég bað um marga miða á leikinn en mér tókst ekki að redda öllum þeim sem ég vildi. Ég bað um 45 miða,“ sagði Pedri.

Leikur Spánar og Sviss hefst klukkan 20:45 að íslenskum tíma í kvöld og er sýndur á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×