FCC heldur meðal annars um útsendingarleyfi fyrir sjónvarps- og útvarpsstöðvar, gervihnattaútsendingar og nettengingar, svo eitthvað sé nefnt.
Carr, sem er fyrir æðsti Repúblikaninn í stjórn FCC, hefur heitið því á undanförnum dögum að berjast gegn því sem hann hefur kallað „ritskoðunar-samtökin“ og á hann þar við Facebook, Google, Apple, Microsoft og aðra, eins og bent er á í frétt Washington Post.
Hann er einnig ötull stuðningsmaður Elons Musk, auðugasta manns heims og ráðgjafa og bandamanns Trumps. Carr hefur lagt til að FCC styrki SpaceX, fyrirtæki Musks, með hundruðum milljónum dala vegna Starlink, gervihnattaþyrpingar fyrirtækisins sem hægt að fá internetþjónustu gegnum.
Sjá einnig: Musk settur í niðurskurðinn og sjónvarpsmaður verður varnarmálaráðherra
FCC hefur til skoðunar umsókn frá SpaceX um það hvort smágervihnettir fyrirtækisins megi vera á lægri sporbraut en þeir eru. Það myndi gera nettenginguna hraðvirkari. Gervihnettir þessir hafa þó komið niður á störfum geimvísindamanna.
Sjá einnig: Fyrstu Starlink-rákirnar á næturhimni yfir Íslandi
Carr skrifaði hluta af Project 2025, sem er áherslulisti á vegum samtaka sem kallast Heritage Foundation og var skrifaður sem mögulegur leiðarvísir fyrir ríkisstjórn Trumps. Þó nokkrir sem komu að því að skrifa Project 2025 hafa starfað við framboð Trumps og hefur verkefninu verið lýst sem „óskalista“ íhaldsmanna í Bandaríkjunum.
Sjá einnig: „Ég held að það sé alveg ástæða til að hafa áhyggjur“
Áður en Trump lýsti því yfir að hann ætlaði að tilnefna Carr hafði sá síðarnefndi sent bréf til Tim Cook hjá Apple, Mark Zuckerberg hjá Meta, Satya Nadella hjá Microsoft og Sundar Pichai hjá Alphabet og sakað þá um að ritskoða ákveðin sjónarmið. Í bréfinu sagði hann mögulegt að ríkisstjórn Trumps myndi taka þessa meintu ritskoðun til rannsóknar.
We must dismantle the censorship cartel and restore free speech rights for everyday Americans.
— Brendan Carr (@BrendanCarrFCC) November 18, 2024
Þá hefur Carr verið gagnrýninn á bandarískar sjónvarpsstöðvar. Í nýlegu tísti sagði hann að eftir að Trump tekur við völdum muni FCC þvinga sjónvarpsstöðvar til að starfa í þágu almennings.
Broadcast media have had the privilege of using a scarce and valuable public resource—our airwaves. In turn, they are required by law to operate in the public interest.
— Brendan Carr (@BrendanCarrFCC) November 18, 2024
When the transition is complete, the FCC will enforce this public interest obligation.
Í kosningabaráttunni og fyrir hana hefur Trump ítrekað kallað eftir því að sjónvarpsstöðvum Bandaríkjanna verði refsað og útsendingarleyfi þeirra afturkölluð. Þetta hefur hann meðal annars sagt um CBS, ABC, NBC og Fox og í næstum öllum tilfellum vegna spurninga sem honum hefur verið illa við eða útsendinga sem hafa ekki fallið í kramið hjá honum, samkvæmt greiningu CNN.
Eftir kappræður Trumps og Kamölu Harris, þar sem Trump þótti standa sig illa, sakaði hann starfsmenn ABC um að hafa gefið Harris spurningarnar fyrir fram og varð reiður yfir því að stjórnendur bentu á ósannindi hans. Kallaði hann eftir því að útsendingarleyfið yrði tekið af fyrirtækinu. Þetta er eitt dæmi af mörgum.
Stóru stöðvarnar eru ekki háðar útsendingarleyfi frá FCC en smærri stöðvar sem reknar eru víðsvegar um Bandaríkin og oftar en ekki í eigu stærri fyrirtækja, eru háðar leyfisveitingum.
Sérfræðingur í þessum málum sagði CNN þó að ferlið við að svipta sjónvarpsstöðvar útsendingarleyfi væri svo tímafrekt að ómögulegt væri að ljúka því á einu kjörtímabili.
Þátt fyrir það hafa forsvarsmenn margra umræddra fyrirtækja lýst yfir áhyggjum af mögulegum hefndaraðgerðum Trumps.