Innlent

Fugla­flensa greindist í máfi við Reykja­víkur­tjörn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Fuglinn fannst veikur við Reykjavíkurtjörn. Mynd úr safni.
Fuglinn fannst veikur við Reykjavíkurtjörn. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Skæð fuglainflúensa (H5N5) greindist í máfi sem fannst við Reykjavíkurtjörn í byrjun mánaðar. Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem sjúkdómurinn greinist í villtum fugli á höfuðborgarsvæðinu. Matvælastofnun hvetur almenning til að varast það að snerta eða handfjatla hræ eða veika villta fugla og tilkynna strax um það til stofnunarinnar ef það finnur veika eða dauða fugla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST en þar segir að umræddur máfur hafi fundist við Tjörnina þann 1. nóvember. Fuglinn hafi verið ófær um að forða sér og því hafi starfsfólk borgarinnar aflífað fuglinn og fært hann til sýnatöku hjá Dýraþjónustu Reykjavíkur. Tveimur vikum síðar greindist fuglainflúensan skæða í sýni frá hræinu á tilraunastöð HÍ að Keldum.

„Matvælastofnun og áhættumatshópur um fuglainflúensu meta miðlungs líkur á því að alvarlegt afbrigði fuglainflúensuveira berist í alifugla og aðra fugla í haldi og er óvissustig, sem virkjað var í síðasta mánuði, því enn í gildi,” segir meðal annars í tilkynningunni.

Lítil hætta fyrir fólk en ráðlagt að sýna aðgát

Þá er tekið fram að smithætta af skæðum fuglainflúensuveirum sem þessari sé lítil fyrir almenning. Hún geti hins vegar verið miðlungs fyrir einstaklinga sem eru í mikilli nálægð eða snertingu við fugal.

„Þrátt fyrir litla smithættu er almenningi ráðlagt að snerta ekki hræ og koma ekki nálægt eða handleika veikan villtan fugl, nema að viðhöfðum góðum sóttvörnum svo sem að nota einnota hanska og veiruhelda grímu. Ef fugl er augljóslega slasaður skal tilkynna um hann til viðkomandi sveitarfélags sem er skylt að bregðast við samkvæmt lögum um velferð dýra. Sveitarfélög eru ábyrg fyrir því að koma villtum dýrum í neyð til aðstoðar eða sjá til þess að þau séu aflífuð á mannúðlegan hátt,“ segir ennfremur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×