Jake Paul vann hina 58 ára gömlu goðsögn Mike Tyson í bardaga þeirra um helgina en bardaginn fór fram á AT&T Stadium sem er heimavöllur NFL-liðsins Dallas Cowboys.
Aldrei áður í sögu hnefaleika, sem haldir hafa verið fyrir utan Las Vegas, hafa miðar á bardaga selst fyrir hærri upphæð.
Það mættu meira en 72 þúsund manns á bardagakvöldið og innkoman var alls 18,1 milljónir Bandaríkjadala eða næstum því tveir og hálfur milljarður í íslenskum krónum. ESPN segir frá.
Gamla metið í Texas var þegar níu milljónir dollara komu inn á bardaga Canelo Alvarez og Billy Joe Saunders árið 2021.
Talið er að um 60 milljónir heimila hafa síðan horft á bardagann í sjónvarpi eða í gegnum netið. Áhuginn var það mikill að Netflix lenti í miklum vandræðum með að koma útsendingunni til viðskiptavina sinna.
Svo vel heppnuð þótti samt útsending Netflix að hlutabréf í fyrirtækinu hækkuðu um 2,8 prósent í gær.