Dauðadóminn hlaut Sararat Rangsiwuthaporn fyrir að drepa auðuga vinkonu með því að setja blásýru út í mat hennar og drykk í apríl í fyrra. Hún á enn yfir sér höfði sér ákærur fyrir að drepa þrettán aðra vini sína eða kunningja með svipuðum hætti allt frá árinu 2015.
Lögregla telur að að Sararat sé haldin spilafíkn og að hún hafi drepið vini sem hún skuldaði fé. Eftir að hún drap þá hafi hún stolið skartgripum þeirra og öðrum verðmætum, að því er segir í frétt BBC.
Upp komst um Sararat eftir að Siriporn Khanwong, 32 ára gömul vinkona hennar, hneig niður eftir að þær snæddu saman í Ratchaburi-héraði vestur af Bangkok í apríl í fyrra. Lögregla segir að Sararat hafi enga tilraun gert til þess að koma Siriporn til bjargar.
Fjölskylda Siriporn neitaði að trúa því að hún hefði andast af náttúrulegum orsökum. Við krufningu fundust leifar af blásýru og þá hafði síma hennar, reiðufé og töskum verið stolið. Sararat neitaði sök þegar hún var ákærð fyrir morðið.
Auk Sararat hlaut fyrrverandi eiginmaður hennar og lögmaður fangelsisdóma fyrir að fela sönnunargögn til að hjálpa henni að komast undan löngum armi laganna. Eiginmaðurinn fyrrverandi hlaut 16 mánaða fangelsisdóm en lögmaðurinn tveggja ára.