Erlent

Segir notkun eldflaugarinnar fela í sér stig­mögnun á­taka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eldflauginni var skotið að Dnipro, þar sem ljós sáust á himni.
Eldflauginni var skotið að Dnipro, þar sem ljós sáust á himni. AP/Almannavarnir í Úkraínu

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir notkun Rússa á langdrægri eldflaug gegn Úkraínu fela í sér umtalsverða stigmögnun átaka. Hann kallar eftir fordæmingu og viðbrögðum alþjóðasamfélagsins.

Selenskí sagði í yfirlýsingu í gær að notkun eldflaugarinnar, sem getur borið kjarnavopn, væri til marks um að Rússar hefðu engan áhuga á að semja um frið. Beita þyrfti þá þrýstingi, sem yrði aðeins gert með því að sýna styrk.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti sagði stjórnvöld í landinu hins vegar áskilja sér þann rétt að ráðast gegn þeim ríkjum sem hefðu séð Úkraínumönnum fyrir vopnum sem þeir notuðu gegn Rússum.

Þá endurtók hann fullyrðingar sínar um að stríðið í Úkraínu væru í raun tilkomið fyrir tilstilli Vesturlanda.

Farah Dakhlallah, talsmaður Atlantshafsbandalagsins, sagði notkun Rússa á hinu langdræga vopni hvorki breyta gangi átakanna í Úkraínu né hræða bandmenn frá því að styðja Úkraínumenn.

Þingfundi dagsins í dag var frestað í Kænugarði vegna mögulegrar hættu og þingmönnum sagt að halda fjölskyldum sínum frá hverfinu í kringum þinghúsið.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×