Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir við fréttastofu nú í morgun að á kennarafundinum í dag verði byggt á þeim grundvelli sem sæst var á í gær, þegar nokkur framgangur hafi loks orðið í viðræðum.
Þá eru samninganefndir lækna og ríkis einnig byrjaðar að funda í húsinu. Þar er unnið í kapphlaupi við tímann, boðað verkfall lækna hefst á miðnætti. Ekki náðist í Steinunni Þórðardóttur formann Læknafélags Íslands í morgun en hún sagði við Vísi í gær að ekki væri útilokað að samningar næðust í dag, og þar með yrði verkfalli aflýst.
Inntur eftir því hvort hann sé bjartsýnn á gott gengi í dag svarar ríkissáttasemjari á almennum nótum; hann sé bjartsýnn að eðlisfari - fallegt veður sé úti og allt í góðu standi.