Innherji

Undir hlut­höfum komið hvort skráning sam­einaðs fé­lags hér heima heppnist

Hörður Ægisson skrifar
Árni Sigurðsson, forstjóri Marel, segir að samruninn við JBT snúist um að „búa til frábært sameinað félag með einstaka stærðarhagkvæmni og vöruframboð sem einblínir á vaxandi og aðalandi markað á heimsvísu.“
Árni Sigurðsson, forstjóri Marel, segir að samruninn við JBT snúist um að „búa til frábært sameinað félag með einstaka stærðarhagkvæmni og vöruframboð sem einblínir á vaxandi og aðalandi markað á heimsvísu.“

Marel kemur inn í áformaðan risasamruna við John Bean Technologies (JBT) „algjörlega sem jafningi“ bandaríska fyrirtækisins, að sögn Árna Sigurðssonar forstjóra, sem telur að hluthafar ættu að hafa enn meiri trú á sameinuðu félagi sem verði með einstaka stærðarhagkvæmni og segist ekki hafa upplifað neina fjárfesta tala „ákveðið“ á móti samrunanum. Í viðtali við Innherja undirstrikar hann að það séu hagsmunir þeirra sem vilja taka tilboðinu hjá JBT að ákveða sig snemma fremur en á lokametrunum og brýnir hluthafa Marel að það sé undir þeim komið hvort skráningin á Íslandi muni heppnast vel eða ekki þegar fram í sækir.

Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að fyrsti dagur sameinaðs félags undir nafninu JBT Marel Corporation, sem ætti að velta á næsta ári samanlagt um fjórum milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði um 550 milljarða króna, verði snemma í janúarmánuði – að því gefnu að yfir níutíu prósent hluthafa Marel samþykki yfirtilboð JBT á komandi vikum. Marel vinnur nú að því að afla samþykkis við samrunanum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem er áætlað að muni fást núna fyrir mánaðarmótin – og á svipuðum tíma frá samkeppnisyfirvöldum í Ástralíu.

Þetta snýst um að búa til frábært sameinað félag með einstaka stærðarhagkvæmni og vöruframboð sem einblínir á vaxandi og aðalandi markað á heimsvísu.

Það er eitt ár núna frá því að JBT gerði fyrst óskuldbindandi yfirtökutilboð í Marel og þú hafðir þá nýtekið við sem forstjóri félagsins. Á þeim tíma hefur orðið bið á þeim viðsnúningi í rekstri og afkomu Marel sem vonast var eftir, á meðan JBT birti núna síðast uppgjör fyrir þriðja fjórðung sem sýndi mettekjur og verulega bætta framlegð. Er Marel að koma inn í þennan samruna sem mun veikara félagið eða er hægt að halda því fram að þetta sé gert á jafningjagrunni?

„Marel kemur sterkt inn í þennan samruna enda þekkingarfyrirtæki með farsæla sögu. Verkefni mitt frá því að ég tók við sem forstjóri fyrir ári síðan hefur einkum verið að leiða viðræður við JBT og einnig vinna að bættum rekstri félagsins. Á þessu eina ári hefur náðst árangur í þessum efnum með bættri framlegð í síðustu tveimur ársfjórðungsuppgjörum. Eftir að hafa farið í gegnum rekstraráætlanir félagsins og lagt mat á stöðu okkar markaða lækkuðum við talsvert afkomumarkmiðið fyrir árið 2024 strax í upphafi ársins, í tengslum við mitt fyrsta uppgjör sem forstjóri. Það sem hefur síðan raungerst er að það hefur tekið lengri tíma fyrir markaðinn að rétta úr kútnum en við gerðum þá ráð fyrir – og það er ein veigamesta ástæða þess að afkoman var undir væntingum á fyrri hluta ársins. Stjórnendur JBT hafa sömuleiðis bent á slíkt hið sama í fyrri uppgjörum sínum á árinu,“ segir Árni Sigurðsson, forstjóri Marel, í ítarlegu viðtali við Innherja.

Tekjur Marel á þriðja fjórðungi minnkuðu lítillega á milli ára en þrátt fyrir það batnaði EBIT-framlegðin og var 9,4 prósent. Félagið staðfesti horfur sínar til meðallangs tíma um að skila yfir 14 prósenta rekstrarframlegð.

Stendur ekki til að selja fiskihlutann frá Marel

Árni bendir á að Marel sé búið að vera að taka föstum tökum á þeim hlutum sem það hefur stjórn á með því að ráðast í ýmsar aðgerðir til að auka skilvirkni og draga úr kostnaði. Fókus hefur verið á aðhald í innkaupum, sameiningu starfsstöðva og sníða stærð félagsins í takt við umsvif, og í ljósi þess hefur starfsfólki fækkað um 2,5 prósent á liðnum fjórðungi, meðal annars vegna ráðningarbanns, og alls um sjö prósent síðasta árið. Samtals voru vel yfir átta þúsund manns starfandi hjá Marel á heimsvísu þegar mest lét en núna er starfsmannafjöldinn komin niður fyrir 7.200.

„Það er verið að leggja mikla áherslu á að passa upp á kostnaðinn og efla sem mest hagkvæmni í rekstri og innkaupum,“ útskýrir hann, og bætir við að sú áhersla muni halda áfram þangað til félagið sjái kröftugri viðsnúning. Nýjar mótteknar pantanir jukust lítillega á þriðja fjórðungi, drifið áfram af stærri verkefnum í alifuglaiðnaði – á meðan það var enn veikleiki á öðrum mörkuðum félagsins, einkum kjöti og fiski þar sem markaðurinn hefur reynst erfiður um nokkurt skeið.

Sá orðrómur hefur verið þrálátur um langt skeið að Marel ætli að selja frá sér fiskihlutann úr starfseminni. Eru áform um það?

„Nei, það stendur ekki til. Afkoman af fiskinum hefur verið dræm en ef þú horfir á endamarkaðinn þá er hann mjög góður og fer vaxandi. Við sjáum mikil tækifæri þar og erum að vinna í að efla stöðu okkar á markaðnum. Með aukinni áherslu á eldi, bæði í laxi og hvítfiski, þá eru hins vegar meiri tækifæri þar sem stærð og lag fiskins er með minni breytileika sem hjálpar vinnslunni og eykur stærðarhagkvæmni. Þetta er holl sjálfbær afurð sem krefst minna fóðurs til þess að búa til hvert kíló. Við erum því afar spennt fyrir þessum markaði og ætlum að grípa til frekari aðgerða til að bæta reksturinn á þeim hluta.“

Í grunninn er það þannig að við höfum ekki ráðist í neinar aðgerðir á undanförnum mánuðum sem eru einvörðungu í tengslum við mögulegan samruna við JBT.

Árni undirstrikar hins vegar að Marel sé „algjörlega jafningi JBT þegar kemur að því að horfa til samrunans,“ og bendir á að vegna þess að bandaríska félagið sé með dreifða endamarkaði þá séu sveiflurnar almennt minni hjá þeim borið saman við Marel sem er með áherslu á færri slíka markaði. Þá sé Marel sömuleiðis að einblína á stærri verkefni sem eru þá um leið viðkvæmari fyrir hagsveiflum og vaxtastiginu hverju sinni. Þetta þýði að JBT sér bata á mörkuðum fyrr og mótteknar pantanir eru afhentar hraðar sem skili sér strax í tekjum.

Úr fjárfestakynningu JBT. Áætlað er að sameinað félag muni velta um fjórum milljörðum dala á árinu 2025.

„Við erum hins vegar í grunninn að horfa á þetta allt saman til miklu lengri tíma en nokkra ársfjórðunga“ nefnir Árni, og heldur áfram:

„Marel hefur sterka stöðu í alifuglaiðnaði og JBT er sömuleiðis með öflugar einingar (e. building blocks) í þeim iðnaði sem við áformum að sameina sem gefur okkur mikinn styrkleika. Þá erum við einnig að horfa til þess að Marel hefur verið framsýnna félagið í gegnum árin og fjárfest mikið í innviðum, hvort sem það tengist vöruhúsum, framleiðslu, vöruþróun og markaðsmálum. Þetta eru allt saman hlutir og þekking sem JBT er að líta til sem mikils ávinnings fyrir sameinað félag. “

Hagræðingaraðgerðir ekki vegna samrunans við JBT

Skilaboðin frá Marel á síðustu fjórðungum, eins og þú nefndir, hefur verið áhersla á hagræðingu og minnka kostnað. Eru þetta aðgerðir sem félagið er að grípa til beinlínis vegna samrunans – eða ráðstafanir sem hefði þurft óháð viðræðunum við JBT?

„Í grunninn er það þannig að við höfum ekki ráðist í neinar aðgerðir á undanförnum mánuðum sem eru einvörðungu í tengslum við mögulegan samruna við JBT. Hluthafar Marel hafa ekki enn tekið afstöðu til tilboðsins – og við erum að reka félagið með þeim hætti að það kunni að koma til þess að þeir vilji ekki selja. Þá væri Marel eftir sem áður vel í stakk búið til að halda áfram á sínu ferðalagi,“ að sögn Árna.

Ef hluthafar hafa trú á Marel, og því sem félagið hefur verið að gera um langt skeið, þá held ég að þeir ættu að hafa enn meiri trú á sameinuðu félagið við JBT.

Hann bendir á að sameinað fyrirtæki JBT og Marel hafi ýmsar leiðir til þess að ná metnaðarfullum markmiðum sínum, sem mætti greina í þrennt.

„Í fyrsta lagi að með betri horfum á markaði þá ætti reksturinn (e. operational leverage) að skila auknum tekjum umfram kostnað vegna fjárfestinga undanfarinna ára. Í öðru lagi með að leita stöðugt leiða til að betrumbæta reksturinn. Þriðja leiðin er síðan samlegðin sem verður til á bæði tekju- og kostnaðarhliðinni þegar fyrirtækin sameinast. Við erum núna að einblína á fyrstu tvo þættina en undirbúa þann þriðja.“

Samruni þessara tveggja félaga, með samanlagt markaðsvirði um þessar mundir sem nálgast þúsund milljarða, sem starfa undir ólíku regluverki er stór og flókin – ekki aðeins í íslensku samhengi. Hvernig hefur ykkur í Marel tekist að halda fókus á rekstrinum samhliða samrunaferlinu?

„Verkefnið hefur gengið mjög vel miðað við hversu umfangsmikið það er. Það gekk framar vonum á fyrri hluta ársins, þegar það voru fáir stjórnendur sem komu að vinnunni, en eftir því sem lengra hefur liðið inn í viðræðurnar þá þurfa fleiri starfsmenn að koma að málinu og undirbúa ýmis atriði í tengslum við samrunann. Það er einfaldlega nauðsynlegt þegar kemur að því að skipuleggja fyrirkomulagið og skipurit að sameinuðu félagi – þá þarftu þekkinguna og rétta fólkið til að taka þær ákvarðanir. Kosturinn sem fylgir því er að þú eykur líkurnar að réttar ákvarðanir séu teknar og starfsfólkið upplifir minni óvissu um framhaldið. Á móti er ókosturinn sá að þú þarft að biðja stjórnendur og annað starfsfólk um eiga fjölmarga fundi og verja meiri tíma í málefni sem tengjast samrunanum.“

Að sögn Árna er félagið núna að fara í gegnum erfiðasta tímabilið vegna þess mikla tíma sem er ráðstafað í að undirbúa samrunann. „Það er meiri list en vísindi að finna réttan jafnvægispunkt. Starfsfólkið stendur sig frábærlega samhliða því að það er vinna lengri vinnustundir en það gerir að staðaldri. Upp á síðkastið hefur þetta valdið smávegis truflun, ef ég á að vera alveg hreinskilinn, en maður veit af því og tekur tillit til þess.“

Það var augljóslega mikil áhersla lögð á það hjá stjórn Marels að tryggja arfleifð og stöðu félagsins hér á landi – sem birtist meðal annars í nafninu JBT-Marel, tvískráningu í NASDAQ Íslandi og að höfuðstöðvar fyrirtækisins í Evrópu verði staðsettar hér á landi. Voru þetta atriði sem var erfitt að fá JBT til að gangast við?

„Þegar þú ert að skoða kaup á fyrirtæki, eins og JBT er að gera í þessu tilfelli með Marel, þá ertu að gera það vegna styrkleika þess félags. Umræðan verður oft og tíðum þannig að einhver ætli sér að kaupa fyrirtæki í því skyni að loka tilteknum einingum eða selja það frá sér í bútum. Yfirleitt er það hins vegar þannig, og við í Marel höfum nálgast yfirtökur með þeim hætti, að þú sért að falast eftir því gerir félagið áhugavert og er um leið styrkleikar þess.

JBT er þess vegna að horfa á miklu stærri mynd. Þetta snýst um að búa til frábært sameinað félag með einstaka stærðarhagkvæmni og vöruframboð sem einblínir á vaxandi og aðalandi markað á heimsvísu. Það var því meðal annars mjög eðlilegt að sameinað fyrirtæki heiti JBT-Marel,“ að sögn Árna.

Skráningin myndi gera mikið fyrir sameinað félag og Ísland

Fyrsta óskuldbindandi tilboðið frá JBT í allt hlutafé Marel gerði ekki ráð fyrir því að sameinað félag yrði skráð á markað bæði í Bandaríkjunum og hér á Íslandi.

„Fyrst þegar JBT nálgaðist okkur í nóvember fyrir einu ári,“ útskýrir Árni, „þá voru þeir enn að læra og skilja félagið. Á meðal þess sem þeir komust þá að var að hluthafar Marel eru afskaplega góðir hluthafar sem margir hverjir hafa stutt við bakið á félaginu frá því snemma á tíunda áratugnum – og gert fyrirtækið að því sem það er í dag. Það er gott að hafa yfir að ráða öflugum hópi lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta meðal hluthafa sem veita ákveðinn stöðugleika og styðja við félagið með því að horfa til lengri tíma litið.“

Með áframhaldandi skráningu Marel á Íslandi sé því verið að leitast við að hafa þá fjárfesta áfram í hluthafahópnum. Þegar fyrsta óskuldbindandi tilboðið barst frá JBT þá var ljóst að lífeyrissjóðunum, sem fara samanlagt með stóran hlut í Marel, hugnaðist það ekki að Marel yrði afskráð af markaði hér heima og sjóðirnir myndu á móti eignast stóran hlut í skráðu bandarísku félagi sem þeir þekktu lítið til. Fjárfestingar lífeyrissjóðanna í hlutabréfum erlendis eru almennt gerðar í gegnum verðbréfa- og kauphallarsjóði en beinn eignarhlutur þeirra í erlendum félögum er hverfandi.

Aðspurður hvort fjárfestar þurfi ekki að óttast að horfið verði frá tvískráninguna áður en langt um líður segir Árni svo ekki vera. „Ég segi einfaldlega að það er undir okkar hluthöfum komið hvort skráningin hér heima heppnist vel eða ekki þegar fram í sækir. Ég vona innilega að hún geri það af því að ég tel að það muni gera mikið fyrir bæði sameinað félag og Ísland.“

Hluthafar Marel geta valið um að greitt alfarið í reiðufé, blöndu af reiðufé og bréfum í sameinuðu félagi JBT, eða eingöngu í hlutafé. Greiðsla í reiðufé til hluthafa getur hins vegar að hámarki orðið um 950 milljónir evra og þeir munu eignast um 38 prósent hlutafjár í sameinuðu fyrirtæki. Hlutfallsleg skipting eftir viðskiptin byggir á forsendu um að virði JBT sé 96,25 dalir á hlut – umtalsvert lægra en það er um þessar mundir, sem er 124 dalir. Miðað við fasta skiptigengið fást greiddar 538 krónur á hlut í Marel, langt undir núverandi hlutabréfaverði sem nemur 612 krónum á hlut.

Hlutabréfaverð Marel hefur hækkað um þrjátíu prósent frá áramótum.

Þú kannast við þá umræðu að sumir benda á að fáeinum árum eftir að samruninn hefur gengið í gegn þá verði flestir stærstu íslensku hluthafarnir, eins og lífeyrissjóðirnir, búnir að selja sig út úr félaginu og skráningin hér heima því sjálfhætt. Þú ert þá að reyna hvetja fjárfesta til að gera það ekki og vera sem lengst í hluthafahópnum?

„Ef hluthafar hafa trú á Marel, og því sem félagið hefur verið að gera um langt skeið, þá held ég að þeir ættu að hafa enn meiri trú á sameinuðu félagi við JBT. Við erum að fara, eins og áður sagði, að stækka vöruframboðið og sækja inn á nýja endamarkaði í matvælageiranum ásamt því að ná fram stærðarhagkvæmni í Asíu og Suður-Ameríku og öðrum nýmörkuðum. Þannig að ferðalagið er að mörgu leyti það sama og verið hefur, nema að núna erum að fara gera það á grunni stærra félags með mun meiri slagkraft. Þá verða líka tækifæri til þess að ná fram meðal annars meiri samlegð í tekjum og innkaupum. Framtíðin er því mjög björt og ég vona innilega að hluthafar okkar sjái það með sama hætti,“ undirstrikar Árni.

Fylgir mikil ábyrgð að fá Marel í samstæðuna

Samkvæmt því samkomulagi sem hefur náðst á milli Marel og JBT er gert ráð fyrir að stjórn sameinaðs félags muni samanstanda af tíu stjórnarmönnum, þar af fimm óháðum stjórnarmönnum frá JBT fyrir sameiningu, fjórum óháðum stjórnarmönnum frá Marel fyrir sameiningu, og núverandi forstjóra JBT, Brian Deck.

Ég held að það séu því mikil tækifæri fyrir íslensku hluthafana að koma með öflugum hætti að félaginu og gera sig þar gildandi.

Þegar litið er á núverandi hluthafahóp JBT er lítið um stóra virka fjárfesta. Stærstu hluthafarnir eru einkum vísitölusjóðir í stýringu BlackRock og Vanguard – þessi tvö fyrirtæki fara saman með tæplega prósenta hlut – sem eru almennt óvirkir eigendur.

Með hliðsjón af samsetningu hluthafahóps JBT og að stærstu hluthafarnir hjá Marel yrðu tiltölulega umsvifamiklir í sameinuðu félagi, eru þá ekki tækifæri fyrir þá íslensku fjárfesta að hafa áhrif eftir að samruninn gengur í gegn?

„Samanlagður eignarhlutur hluthafa Marels í sameinuðu félagi verður 38 prósent og íslenskir fjárfestar verða því stórir í eigendahópnum. Það er vissulega áhugaverður punktur að stærstu eigendur JBT séu vísitölusjóðir, en það eru klárlega samt hluthafar hjá félaginu – og ég hef alveg kynnst því – sem hafa skoðanir og halda stjórnendum á tánum. Það vantar ekki, en með öðrum hætti en við þekkjum hér heima með sterkum kjölfestufjárfestum sem vilja taka þátt í að móta stefnu og markmið viðkomandi félaga. Ég held að það séu því mikil tækifæri fyrir íslensku hluthafana að koma með öflugum hætti að félaginu og gera sig þar gildandi,“ að mati Árna.

Hann bætir einnig við að félagið muni halda áfram að eiga í nánum samskiptum við íslensku hluthafana eftir að samruninn klárast.

„Ég mun ekki hverfa inn í þetta stóra sameinaða félag heldur taka þátt í að tala við hluthafa og við ætlum meðal annars að halda reglulega stjórnarfundi á Íslandi. Það er ríkur skilningur á því, og ég hef gert stjórn og forstjóra JBT það ljóst, að það fylgir því mikil ábyrgð að fá Marel inn í samstæðuna. Marel er gríðarlega stórt og öflugt félag á Íslandi, sem hefur mikil jákvæð áhrif á bæði samfélagið og íslenskt atvinnulíf.“

Árni segist vera „hóflega“ bjartsýnn á að nægjanlega margir hluthafar muni samþykkja tilboðið hjá JBT.

Ekki liggur fyrir hversu stóran hlut erlendir fjárfestar og sjóðir fara með í Marel um þessar mundir, hann hefur hins vegar farið vaxandi að undanförnu með kaupum vogunarsjóða í bréfum félagsins hér heima, en ætla má að hann nemi að minnsta kosti samanlagt yfir þrjátíu prósentum. Þá fer fjárfestingafélagið Eyrir Invest, langsamlega stærsti hluthafi Marels, með um fjórðungshlut á meðan íslenskir lífeyrissjóðir áttu samtals um þriðjungshlut í félaginu um síðustu áramót.

„Hóflega bjartsýnn“ að hluthafar samþykki tilboðið

Það er ljóst að erlendu fjárfestarnir munu samþykkja tilboðið hjá JBT og stjórnendur Eyris hafa sömuleiðis skuldbundið sig til að gera slíkt hið sama. Hvort það takist að afla samþykkis að lágmarki 90 prósent hluthafa mun því velta mjög á afstöðu lífeyrissjóðanna – einkum Gildis, LSR og LIVE. Hvernig hefur samtalið við þá fjárfesta verið og skynjið þið stuðning þeirra við tilboðið?

„Heilt yfir hef ég upplifað það að lífeyrissjóðir, ásamt öðrum hluthöfum, séu að nálgast þetta mál af mikilli yfirvegun og vilja skilja það vel. Við tókum samtal við stærstu hluthafana snemma í ferlinu og héldum síðan fjárfestakynningar þegar yfirtökutilboðið kom fram í júní. Þetta er nokkuð langt ferli, þar sem tilboðið gerir að hluta til meðal annars ráð fyrir greiðslu með hlutabréfum, og í ljósi þess myndi ég segja að lífeyrissjóðirnir – og fleiri fjárfestar – hafa því haldið spilunum fremur þétt að sér, sem ég skil vel. En ég get ekki sagt að sé búinn að upplifa það að einhver fjárfestir sé með ákveðnum hætti að tala á móti þessum samruna.“

Árni undirstrikar að það sé búinn að eiga sér stað mikil undirbúningsvinna í aðdraganda væntanlegrar sameiningar og miðað við þann stað sem félagið er núna komið á þá segist hann vera „hóflega“ bjartsýnn á að nægjanlega margir hluthafar muni samþykkja tilboðið hjá JBT. „Á sama tíma mun ég hafa fullan skilning á því sem hluthafar að lokum gera. En ég hef ekki heyrt neinar háværar efasemdarraddir fram til þessa.“

Arion banki er ráðgjafi JBT í tengslum við yfirtökutilboðið og tvískráningu Marel hér heima.

Frestur fyrir hluthafa til að taka afstöðu til tilboðsins var síðast framlengdur til 20. desember næstkomandi. Þið eruð væntanlega áfram um að helstu fjárfestar séu ekki að draga það fram á síðustu stundum með að ákveða sig sem gæti þá þýtt að það þurfti stöðugt að framlengja tilboðið vegna óvissu hvort samþykki fáist frá tilskyldum meirihluta?

„Það virðist vera séríslenskt fyrirbæri að fjárfestar bíði fram á síðustu stundu með að ákveða sig í slíkum aðstæðum. Ég skil það betur þegar um er að ræða frumútboð, eða annars konar hlutafjárútboð, þar sem verið er ákveða einhvern verðpunkt. Það má rifja það upp þegar Marel var skráð á markað í Hollandi á árinu 2019 þá kepptust fjárfestar þar við að láta vita snemma um þátttöku í ferlinu af því að það hafði áhrif á hversu mikið þeir fengu úthlutað af bréfum. Þessi dýnamík hér á landi er hins vegar nokkuð séríslensk og JBT er enn að reyna skilja hana betur.“

Árni segir að það séu hagsmunir þeirra sem vilja taka tilboðinu hjá JBT að ákveða sig frekar snemma en seint.

„Þar er ég að tala um kannski tíu til fjórtán dögum áður en tilboðsfresturinn rennur út af því að JBT þarf að taka ákvörðun áður en að þeim degi kemur hvað félagið skuli gera. Ef þeir halda að ekki sé að nást samþykki yfir 90 prósent hluthafa þá er sá möguleiki að framlengja gildistíma tilboðsins enn frekar. En ef JBT hefur ekki nægjanlega góða mynd af því hvernig atkvæðin munu liggja þá gæti félagið einfaldlega þurft að framlengja vegna þess að það sé hætta á því að þetta sé ekki komið í hús – og það veldur því að þeir hluthafar sem ætluðu að samþykkja munu fá sínar greiðslur seinna en ella.“

Ég mun hafa fullan skilning á því sem hluthafar að lokum gera. En ég hef ekki heyrt neinar háværar efasemdarraddir fram til þessa.

Þá nefnir Árni sömuleiðis að það sé mikilvægt að hafa það í huga að þótt hluthafar séu búnir að ákveða að samþykkja tilboðið þá geta þeir alltaf breytt um skoðun og fengið þau til baka áður en fresturinn rennur út.

„Þetta er ekki bindandi ákvörðun þar til tilboðstímabilið rennur út. Helstu rökin fyrir því að bíða eins lengi með að gefa upp afstöðu þína er sú ef hlutabréfaverð JBT breytist mikið í millitíðinni sem kunni að hafa áhrif á afstöðu þína. En þá er hægt að skipta um skoðun og fá bréfin til baka og endurskoða afstöðuna,“ útskýrir hann.

Kemur til greina, svo dæmi sé tekið, að gefa það út á markaðinn þegar ákveðið stór hópur hluthafa hefur veitt samþykki sitt í því skyni að ýta við öðrum fjárfestum að gefa sig upp?

„Það er algjörlega undir JBT komið hvernig þeir munu standa að þessu. Það er JBT sem er að leggja fram tilboðið og þeir munu að lokum taka ákvörðun hvort félagið ætli að óska eftir annarri framlengingu hjá fjármálaeftirliti Seðlabankans – eða láta þetta duga og sjá hver niðurstaðan verður. Boltinn liggur því alfarið hjá JBT og ég held að þeir muni vega og meta alla kosti í stöðunni til að ná þessum markmiðum sínum.“

Minni skuldsetning forsenda fyrir því að hefja ytri vöxt

Búist er við því að sameining JBT og Marel muni leiða til kostnaðarhagræðis upp á um 125 milljónir Bandaríkjadala á ári þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram eftir liðlega þrjú ár. Að auki er talið að tekjusamlegðin geti numið um 75 milljónum dala á ári þar sem sameinað félag getur boðið heildstæðari lausnir og samnýtt sölu- og dreifileiðir. Stjórnarformaður Eyris Invest hefur nefnt að markaðirnir sem Marel starfar á séu enn mjög skiptir, því sé nauðsynlegt að taka þátt í þeirri samrunaþróun sem er fyrirsjáanleg – og JBT sé það fyrirtæki sem passar best til að sameinast Marel.

Sjáið þið fyrir ykkur að huga fljótt að ytri vexti eða verður áherslan fyrst og fremst á að stilla saman strengi og ná fram þeirri samlegð áður en farið verður að huga að yfirtökum?

„Ég held að það séu tveir þættir sem munu einkum ákvarða hvenær við förum að huga að ytri vexti en bæði félögin eru sammála um að það verður hluti af stefnunni til lengri tíma litið. Í fyrsta lagi þarf að líta til þess að JBT greiðir um 35 prósent af kaupverðinu með reiðufé – allt að 950 milljónir evra – og þess vegna verður skuldsetning sameinaðs fyrirtækis um 3,5 sinnum áætlaður hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA). Við munum því horfa til þess að lækka þá skuldsetningu áður en farið verður í stórar yfirtökur þannig að það hvíli ekki óhófleg skuldsetning á félaginu.

Þá mun það einnig ráðast af því hvernig hlutirnir munu ganga ef samruninn klárast, að stilla saman strengi meðal stjórnenda og starfsfólks í því skyni að ná fram þeirri samlegð sem við höfum kynnt. Sá þáttur mun líka skilgreina hvenær rétti tíminn verður til að ráðast í frekari ytri vöxt. Ég held að það sé að minnsta kosti hægt að fullyrða að þröskuldurinn til að taka slíkt skref á fyrstu tólf mánuðum verður mjög hár,“ að sögn Árna.

Áætluð kostnaðarsamlegð á ári þegar hún verður að fullu komin fram eftir þrjú ár er áætluð um 125 milljónir dala.

Sumir greinendur hafa nefnt að þeir hafi áhyggjur af hárri skuldsetningu sameinaðs fyrirtækis með hliðsjón af háu vaxtastigi á heimsvísu. Er verið að spenna bogann hvað það varðar of hátt í þessari punktstöðu?

„Miðað við hvar við erum stödd í hagsveiflunni og horfurnar fram á við þá teljum við svo ekki vera, að minnsta kosti ekki miðað áætlað skuldsetningarhlutfall – ef það væri hins vegar komið upp fyrir fjórum sinnum EBITDA-hagnaður þá liti málið öðruvísi út.“

Þá bendir hann einnig á að fyrir JBT þá sé félagið að vega og meta annars vegar hversu langt það vilji ganga í að þynna út hluthafa sína við sameininguna og hins vegar hversu mikil skuldsetning sameinaðs félags getur verið. „Því meira af bréfum sem eru notuð sem greiðsla í viðskiptunum því minni verður skuldsetningin en á móti ertu að þynna hluthafa meira en ella. JBT hefur metið þetta sem réttan meðalveg,“ útskýrir Árni.

Þá bætir hann við að sameinað félag verði með mikinn slagkraft og getu til að minnka skuldsetninguna á skömmum tíma. Samhliða því séu mikil tækifæri í að ná fram tekju- og kostnaðarsamlegð sem sömuleiðis skapar svigrúm til að lækka skuldahlutfallið.


Tengdar fréttir

Blanda af reiðu­fé og hluta­bréfum í JBT „hentar Eyri Invest vel“

Það er mat stjórnar Eyris Invest, langsamlega stærsti eigandi Marels, að væntanlegur samruni við bandaríska fyrirtækið JBT sé „afar jákvætt skref“ fyrir Marel og að blönduð greiðsla í formi hlutabréfa og reiðufjár henti fjárfestingafélaginu vel, meðal annars með hliðsjón af skuldsetningu þess. Stjórnendateymi sprotafjárfestinga Eyris, sem hafa verið færðar talsvert niður í virði vegna erfiðra aðstæðna á mörkuðum, forgangsraðar núna verkefnum og mun halda áfram að styðja við völd félög í eignasafninu.

Líf­eyris­sjóðir stækkuðu stöðuna í Marel og fara með um 40 prósenta hlut

Íslensku lífeyrissjóðirnir, einkum þeir stærstu, juku lítillega við hlutabréfastöðu sína í Marel í fyrra á afar sveiflukenndum og krefjandi tímum á markaði en að teknu tilliti til óbeins eignarhlutar í Eyri Invest fara sjóðirnir núna með samanlagt um fjörutíu prósenta hlut í félaginu. Bandaríska fyrirtækið JBT áformar að gera formlegt yfirtökutilboð í Marel í næsta mánuði en það er meðal annars háð skilyrði um samþykki að lágmarki 90 prósent hluthafa.

Marel lækkar enn af­komu­spána vegna ó­vissu og krefjandi rekstrar­um­hverfis

Þótt rekstrarframlegðin hafi batnað nokkuð á milli ársfjórðunga hjá Marel þá eru markaðsaðstæður enn erfiðar og litast af óvissu, sem endurspeglast í minni mótteknum pöntunum, og félagið hefur því – í annað sinn á þessu ári – lækkað afkomuspá sína til skamms tíma. Uppgjör Marels, sem stefnir að sameiningu við JBT undir lok ársins, var lítillega yfir væntingum greinenda en skuldahlutfall félagsins hélt hins vegar áfram að hækka á öðrum fjórðungi samtímis því að sjóðstreymið versnaði milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×