Í tilkynningu kemur fram að Skarphéðinn hafi áratuga reynslu úr fyrirtækjarekstri og opinberri stjórnsýslu.
„Undanfarinn áratug hefur það verið ferðaþjónusta, bæði í rekstri fjölbreytilegra fyrirtækja í greininni og sem Ferðamálastjóri. Áður var hann hjá Baugi Group og tengdum fyrirtækjum; í verslun, þjónustu, fasteignum og fjárfestingum. Þar á undan var hann í stjórnunarstöðum í Stjórnarráðinu, bæði í fjármálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu.
Steinar hefur breiðan bakgrunn í ferðaþjónustu, smásölurekstri og hugbúnaðarþróun. Undanfarin ár stýrði hann hugbúnaðarþróun Origo á sviði ferðalausna og þá sérstaklega þróun bókunarkerfa og bætta sjálfvirknivæðingu. Hann hefur víðtæka þekkingu á þróun greiðslulausna í ferðaþjónustu. Steinar hefur einnig unnið að eigin rekstri á sviði verslunar, fjártækni og ferðaþjónustu,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Skarphéðni að þeir feðgar hafi rætt stofnun fyrirtækisins í talsverðan tíma. „Það má segja að samverustundir yfir sunnudagssteikinni undanfarin 10 ár hafi farið í að ræða ferðaþjónustuna og hvað hægt sé að bæta og gera enn betur,“ segir Skarphéðinn Berg.
„Rekstrarráðgjöf í ferðaþjónustu hefur verið afar takmörkuð hér á landi. Með mikilli reynslu og þekkingu á ólíkum og fjölbreyttum viðfangsefnum ferðaþjónustunnar teljum við okkur geta lagt til góð ráð sem bætir rekstur og samkeppnishæfni fyrirtækja. Eftir mikinn vöxt fyrirtækja í ferðaþjónustu undanfarin ár er nauðsynlegt fyrir þau að bæta innri rekstur og auka þar með arðsemi. Gögn og reynsla hafa safnast saman á undanförnum árum sem með greiningu og skilningi gefur sóknarfæri,“ segir hann.