Afturelding boðaði til blaðamannafundar í Hlégarði í dag og staðfesti það sem beðið hefur verið eftir, að bræðurnir Jökull og Axel Óskar Andréssynir, báðir uppaldir hjá félaginu, yrðu með Aftureldingu í Bestu deildinni á næstu leiktíð.
Jökull og Axel eru komnir heim✍️ pic.twitter.com/rKWGnEByZ6
— Afturelding (@umfafturelding) December 6, 2024
Jökull, sem er 23 ára markvörður og á að baki 1 A-landsleik, kom heim í sumar eftir sex ára dvöl í Englandi og átti stóran þátt í að koma Aftureldingu upp úr Lengjudeildinni. Hann hefur verið leikmaður Reading, eftir að hafa elt eldri bróður sinn til félagsins. Hann var laus allra mála og Afturelding þurfti því ekki að greiða fyrir hann. Hann skrifaði undir tveggja ára samning.
Axel er 26 ára miðvörður sem lék með KR í sumar eftir að hafa snúið heim úr atvinnumennsku, en ytra lék hann á Englandi og svo í Noregi, Lettlandi og Svíþjóð. Hann skrifaði undir þriggja ára samning en allir hinir sömdu til tveggja ára.

Ljóst er að koma þeirra mun hjálpa Aftureldingu mikið við að festa sig í sessi í efstu deild, en félagið kynnti fleiri nýja leikmenn til leiks.
Oliver Sigurjónsson, varnarsinnaði miðjumaðurinn úr Íslandsmeistaraliði Breiðabliks, er einnig mættur í Mosfellsbæinn. Þessi 29 ára gamli leikmaður hefur leikið með Breiðabliki mestan hluta síns ferils en einnig með unglingaliði AGF í Danmörku og með Bodö/Glimt í Noregi. Samningur hans við Breiðablik var útrunninn og hann kemur því frítt til Aftureldingar, líkt og Axel sem hafði fengið samningi sínum við KR rift.

Afturelding hefur svo einnig fengið hinn 23 ára gamla Þórð Gunnar Hafþórsson frá Fylki, en samningur hans við Árbæinga rann út eftir síðustu leiktíð. Þórður Gunnar kom til Fylkis frá Vestra fyrir tímabilið 2020 og hefur leikið 82 leiki í efstu deild og 22 leiki í næstefstu deild, og skorað samtals níu mörk í þessum leikjum.
