Mourinho er nú 61 árs en hann gerði Real að spænskum meisturum og spænskum bikarmeisturum á sínum tíma. Portúgalinn stýrði liðinu frá 2010 til 2013.
Hann vann hins vegar ekki Meistaradeildina sem Real Madrid átti eftir að vinna þrjú ár í röð undir stjórn Zinedine Zidane frá 2016 til 2018.
Mourinho var spurður út í þann möguleika á blaðamannafundi að snúa til baka til Real Madrid. ESPN segir frá. Real Madrid gæti verið í þjálfaraleit á næstu árum því Carlo Ancelotti er líklegur til að stíga frá borði.
„Ég hef alltaf sagt að ég er mikill aðdáandi Real Madrid. Þeir hafa nú besta þjálfarann í heimi, vin minn Carlo [Ancelotti]. Hann er að standa sig vel. Framtíðin ræðst á því hvað forsetinn [Florentino Perez] vill gera,“ sagði Mourinho.
„Ef hann vill fá ungan þjálfara eins og Xabi [Alonso] eða halda áfram á sömu línu og með Carlo, þjálfara með reynslu. Hann gæti líka horft til þjálfara varaliðsins eins og Raul eða yngriflokkaþjálfarann [ Alvaro] Arbeloa. Það eru því margar leiðir færar,“ sagði Mourinho.
Það fer ekkert á milli mála að hann sjálfur er þá gott dæmi um þjálfara með mikla reynslu.
Samningur hins 65 ára gamla Ancelotti rennur út í júní 2026. Mourinho hélt áfram að daðra við Real Madrid.
„Florentino [Perez] hefur ekki tekið margar slæmar ákvarðanir hjá Real og ég er viss um það, sem stuðningsmaður Real Madrid, að hann tekur rétta ákvörðun með næsta þjálfara,“ sagði Mourinho.