Mescal hefur um hríð verið bendlaður við hlutverk nafna síns en hann hefur vakið mikla athygli síðustu misseri fyrir hlutverk sitt í Gladiator II.
Stefnt er að því að ein bíómynd verði gerð um hvern og einn Bítil í kvikmyndaröð Mendes. Nýlega greindi Ringo Starr trommuleikari Bítlanna að írski leikarinn Barry Keoghan muni leika hann í myndinni um sig.
Í umfjöllun Hollywood Reporter segir að Ridley Scott, leikstjóri Gladiator II, hafi misst það út úr sér á pallborði með leikstjóranum Cristopher Nolan að hann gæti ekki unnið með Mescal í bráð „þökk sé Bítlunum“.
Hann hafi ætlað að fá Mescal til að leika í sínu næsta verkefni, en hann gæti þurft að falla frá þeim áætlunum vegna þess að hann sé á leið í annað verkefni, sem tengist Bítlunum.
Menningartímaritið Variety hefur eftir tveimur heimildum sem standa nærri framleiðslu myndanna að Mescal muni fara með hlutverk í myndunum, þó enn hafi ekki verið undirritaður samningur.
Mescal sagði í viðtali við Entertainment Tonight að það yrði algjör draumur að fá að leika McCartney. Aðspurður hvort hann myndi fara með hlutverkið sagði hann: „Nei, nei, nei, ég ætla ekki að svara því.“