Fjölskylda banamannsins grunaða tilkynnti lögreglu að hans væri saknað um tveimur vikum fyrir morðið. Mangione er grunaður um að hafa skotið Brian Thompson, forstjóra UnitedHealthcare, til bana á götunni í New York þann fjórða desmember síðastliðinn.
Handtekinn með hljóðdeyfða þrívíddarprentaða byssu
Mangione er 26 ára gamall og hefur verið ákærður í Pennsylvaníu, þar sem hann var handtekinn fyrir skjalafals og brot á vopnalögum. Hann var tekinn með þrívíddarprentaða byssu, hljóðdeyfi og fölsuð skilríki sem hann reyndi að framvísa. Hann hefur einnig verið ákærður fyrir sjálft morðið í New York-ríki og til stendur að framselja hann þangað en hann er að reyna að koma í veg fyrir það.
Móðir Mangione sagði við lögreglu þegar hún tilkynnti að hans væri saknað að hún hefði síðast rætt við son sinn fyrsta júlí og að hann hefði verið að vinna í San Francisco. Í kjölfar morðsins á Brian Thompson sá lögreglumaður í San Francisco myndina sem lögreglan í New York hafði dreift af grunuðum banamanninum og þótti hann líkjast Mangione.
Móðirin staðfesti líkindin
Samkvæmt NBC hafði lögreglan í San Francisco þá samband við alríkislögregluna í Bandaríkjunum varðandi málið. Lögreglan í New York hafði þá samband við móður Mangione sem sagði að myndirnar af hinum grunaða gætu verið af syni sínum.
Degi síðar var Luigi Mangione svo handtekinn í bænum Altoona í Pennsylvaníuríki eftir að starfsmaður á veitingastað McDonalds kannaðist við hann úr eftirlýsingum lögreglu.