Körfubolti

Lett­neskur lands­liðs­maður fannst látinn í Moskvu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Janis Timma var að spila körfubolta í Rússlandi þegar hann lést.
 Janis Timma var að spila körfubolta í Rússlandi þegar hann lést. Getty/Roman Kruchinin

Lettneski körfuboltamaðurinn Jānis Timma er látinn en hann var aðeins 32 ára gamall.

Lík Timma fannst utandyra nálægt hóteli í miðborg Moskvu. Úkraínski miðilinn Meduza hefur það eftir rússnesku fréttastofunum Tass og RIA Novosti að Timma hafi sjálfur bundið enda á líf sitt.

Euroleague deildin er meðal þeirra sem minnist Timma í dag. Hann spilaði fimm tímabil í deildinni með fjórum félögum eða Baskonia Vitoria-Gasteiz, Olympiacos Piraeus, Khimki Moskva og UNICS Kazan.

Olympiacos minntist Timma á miðlum sínum. „Við erum í áfalli og í mikilli sorg eftir að hafa fengið þær hræðilegu fréttir að okkar fyrrum leikmaður Jānis Timma hafi látist aðeins 32 ára að aldri. Við munum alltaf minnast hans fyrir fallega brosið hans og fyrir það hversu góðhjartaður hann var,“ sagði í yfirlýsingu gríska félagsins.

Fleiri fyrrum félög hans hafa einnig sent samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og vina.

Timma tók þá ákvörðun í október að halda áfram körfuboltaferli sínum í rússneskri körfuboltadeild sem er rekin af veðmangarafyritækinu Liga Stavok. Hann spilaði þar með liði Alikson.

Timma spilaði fyrst með lettneska landsliðinu árið 2014 en hann skoraði 513 stig í 56 landsleikjum.

Tímabilið hjá honum í fyrra hófst hjá tyrkneska félaginu Darushashfak í Istanbul en endaði hjá spænska félaginu Obradoiro.

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×