Körfubolti

Thelma og Tryggvi best í fyrsta sinn

Sindri Sverrisson skrifar
Thelma Dís Ágústsdóttir og Tryggvi Snær Hlinason voru besta körfuboltafólk ársins 2024, samkvæmt vali KKÍ.
Thelma Dís Ágústsdóttir og Tryggvi Snær Hlinason voru besta körfuboltafólk ársins 2024, samkvæmt vali KKÍ. KKÍ

Thelma Dís Ágústsdóttir og Tryggvi Snær Hlinason hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2024 af KKÍ. Þau hljóta nú nafnbótina í fyrsta sinn.

Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og þjálfurum karla-og kvennalandsliðanna. Þetta er í 27. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998.

Nýja landsliðskonan Danielle Rodriguez og Sara Rún Hinriksdóttir veittu Thelmu mesta keppni um nafnbótina, en karlamegin komu Elvar Már Friðriksson og Kristinn Pálsson næstir á eftir Tryggva. Sara hafði verið valin körfuboltakona ársins fjögur ár í röð og Elvar þrjú ár í röð, fram að valinu í ár.

Rök KKÍ fyrir valinu í ár má lesa hér að neðan.

Val á körfuknattleikskonu ársins 2024:

1. Thelma Dís Ágústsdóttir

2. Danielle Rodriquez

3. Sara Rún Hinriksdóttir

Aðrar sem fengu atkvæði í stafrófsröð eru: Birna Valgerður Benónýsdóttir, Kolbrún María Ármannsdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir

Thelma Dís Ágústsdóttir · Keflavík

Thelma Dís kom heim úr námi árið 2023 hefur síðan leikið vel með Keflavík í Bónus-deildinni. Á árinu sem er að líða varð Keflavík deildar, bikar og Íslandsmeistari og var Thelma Dís burðarstólpi í því liði. Í lok tímabils var Thelma Dís valin í úrvalslið deildarinnar. Keflavík hefur farið ágætlega af stað í vetur og eru í efri hluta deildarinnar. Thelma Dís fer vel á stað og er með 15.2 stig, 4.6 fráköst og 3.9 stoðsendingar að meðaltali.

Íslenska landsliðið lék tvo leiki á árinu og var Thelma lykilleikmaður þar. Í sigrinum gegn Rúmeníu átti hún stórleik og skoraði hún þar 21 stig.

Danielle Rodriquez - BCF Elfic Fribourg

Í lok árs 2023 fékk Danielle Íslenskan ríkisborgararétt en hún kom fyrst til Íslands árið 2016. Danielle átti gott ár með Grindavík en liðið fór í undanúrslit í bikarkeppni og Íslandsmóti. Í lok tímabils var Danielle svo valin í úrvalslið deildarinnar. Danielle skipti svo um félag og leikur nú með Firbourg sem situr í 1. sæti í efstu deild í Sviss ásamt því að hafa leikið í FIBA Eurocup.

Danielle lék fyrstu landsleiki sína fyrir Ísland og átti stórbrotnaframmistöðu og stendur þar uppúr sigurkarfa hennar gegn Rúmeníu.

Sara Rún Hinriksdóttir - Keflavík

Sara Rún kom heim frá Spáni í upphafi árs og gekk til liðs við uppeldisfélagið sitt Keflavík. Á árinu sem er að líða varð Keflavík deildar, bikar og Íslandsmeistari. Sara Rún átti stóran þátt í velgengni liðsins og var meðal annars valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar. Sara Rún hefur á seinni hluta ársins átt við meiðsli að stríða og missti af meiri hlutanum af leiktíðinni. Það er þó gleðiefni að hún er mætt aftur og hefur tekið þátt í síðustu 3 leikjum Keflavíkur.

Val á körfuknattleikskarli ársins 2024:

1. Tryggvi Snær Hlinason

2. Elvar Már Friðriksson

3. Kristinn Pálsson

Aðrir sem fengu atkvæði í starfrófsröð: Jón Axel Guðmundsson, Martin Hermansson, Ægir Þór Steinarsson

Tryggvi Snær Hlinason - Surne Bilbao Basket

Tryggvi er á sínu öðru ári með Bilbao. Á síðustu leiktíð endaði liðið í 13. sæti efstu deildar Spánar þar sem Tryggvi var með 7,4 stig og 5,4 fráköst að meðaltali i leik. Einnig fór Tryggvi með Bilbao í undanúrslit í FIBA Eurocup, Tryggvi var þar með næst flest varin skot af öllum leikmönnum keppninnar.

Á þessari leiktíð er Tryggvi að bæta við sig í tölfræði en hann er með tæp 10 stig og 6 fráköst að meðaltali. Bilbao er sem stendur í 14. sæti efstu deildar Spánar en eru efstir í sínum riðli í FIBA Eurocup.

Tryggvi er lykilmaður í Íslenska landsliðinu sem er sem stendur í 3 sæti í sínum riðli, en það gefur sæti á lokamóti Evrópukeppninnar-EuroBasket. Tryggvi er framlags hæsti leikmaður Íslenska liðsins og er með næst flest varin skot af öllum leikmönnum keppninnar.

Elvar Már Friðriksson - Maroussi B.C.

Elva hóf árið hjá PAOK í Grikklandi og fór liðið í 8 liða úrslit þar sem þeir féllu úr keppni gegn Panathinaikos. Einnig tók liðið þátt í Basketball Champions League þar sem þeir komust uppúr riðlinum sínum. Í sumar færði Elvar sig um set í Grikklandi og skipti yfir til Maroussi en þeir sitja nú í 11 sæti. Þeir eru svo komnir áfram í milliriðla í FIBA EuroCup.

Elvar er búinn að standa sig gríðarlega vel með Íslenska landsliðinu í undankeppni fyrir evrópumótið þar sem hann hefur skilað 14.3 stigum og 6.3 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Kristinn Pálsson - Valur

Kristinn varð bæði deildar og Íslandsmeistari með Val núna í Vor, Kristinn átti frábært ár hér heima í efstu deild og var kjörinn besti leikmaður úrvalsdeildar í kjölfarið. Kristinn er máttarstólpi hjá Vals liðinu í ár, sem situr sem stendur í 11. sæti Bónus deildarinnar.

Kristinn er mikilvægur póstur í Íslenska landsliðinu og ber að minnast stórleiks hans núna í nóvember þar sem hann skoraði 22 stig í sigri á Ítalíu á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×