Hann hefur líka verið ákærður fyrir að sitja um Thompson og að nota ólöglegan hljóðdeyfi þegar hann skaut hann. Mangione var fyrr í vikunni einnig ákærður af héraðssaksóknara í New York-borg fyrir manndráp og hryðjuverk.
Í frétt Reuters segir að Mangione hafi verið birtar ákærurnar í dag. Hann er sakaður í ákærunni um að hafa varið mánuðum í að skipuleggja drápið. Þá er í fréttinni einnig fjallað um dagbók sem lögreglumaður fann í fórum hans þar sem Mangione lýsir hatri sínu á sjúkratryggingabransanum og ríkum forstjórum sérstaklega.
Þá segir einnig í fréttinni að þegar alríkissaksóknarar leggi fram ákæru sé líklegra að hægt verði að óska eftir dauðarefsingu fyrir Mangione. Dauðarefsing var afnumin í New York ríki fyrir mörgum áratugum.
Brian Thompson, forstjóri UnitedHealthcare, var skotinn til bana fyrir utan hótel á Manhattan-eyju í New York-borg, 4. desember, þar sem Thompson var að halda árlega fjárfestaráðstefnu. Mangione er gefið að sök að hafa skotið hann til bana og flúið vettvang á hjóli í Central Park-almenningsgarð.
Mangione fannst loks á McDonald‘s stað í Altoona í Pennsylvaníu-ríki um fimm dögum síðar þar sem hann var handtekinn og færður í skýrslutöku. Hann hefur verið í haldi í New York frá því á fimmtudag en hann var framseldur þaðan frá Pennsylvaníu þar sem hann var handtekinn.