Starfandi forsætis- og matvælaráðherra ákvað eftir kosningar að gefa út umdeilt leyfi til hvalveiða. Í vikunni kom fram að fimm ára veiðileyfi Hvals hf. endurnýjast sjálfkrafa árlega. Matvælaráðuneytið upplýsti að sambærilegt ákvæði um endurnýjun hefur ekki verið í fyrri leyfisveitingum.
Akraneskaupstaður og formaður Verkalýðisfélags Akraness hafa fagnað ákvörðun ráðherrans meðan ýmis dýra- og náttúruverndarsamtök hafa lýst yfir furðu sinni og sakað hann um valdníðslu.
Glænýtt leyfi
Bjarni Benediktsson starfandi matvælaráðherra segir hvalveiðileyfið nýtt og því hafi engin breyting verið gerð.
„Það þurfti engu að breyta varðandi leyfið. Það þurfti að gefa út nýtt leyfi. Það er gefið út með hliðsjón af því að það þarf fyrirsjáanleika í atvinnugreininni,“ segir Bjarni.
Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra skipaði í ár starfshóp sem rýna á í 75 ára gömul lög um hvalveiðar. Hópurinn skilar af sér í febrúar á næsta ári. Í frétt á Stjórnarráðinu kemur fram að skýrslu hópsins sé ætlað að vera grundvöllur fyrir framtíðarstefnumótun um hvalveiðar.
Segist ekki hafa þurft að bíða eftir niðurstöðu hópsins.
„Þessi hópur hefur ekki það hlutverk að skrifa ný lög. Þessi hópur á að líta til sögunnar og til annarra landa. Þetta er hópur sem fyrrverandi ráðherra setur á laggirnar og bindur á engan hátt hendur mínar í þessu máli,“ segir Bjarni.
Hafði ekki tíma til að taka ákvörðun fyrir kosningar
Fiskistofa og Hafrannsóknarstofnun skiluðu áliti sínu um hvalveiðar fyrir kosningar. Bjarni segist ekki hafa haft tíma til að taka ákvörðun fyrir en eftir þær.
„Það var örfáum dögum fyrir kosningar sem ég hafði fengið allar umsagnir og forsendur til að meta málið og ég var bara í kosningabaráttu á þeim tíma. Ég vildi taka mér hæfilegan umhugsunarfrest og geta fundað með fólkinu í ráðuneytinu,“ segir Bjarni.