Kunnugir segja að brotthvarf Þórðar Snæs Júlíussonar síðastliðið sumar megi sumpart rekja til andstöðu við þessi áform. Nú síðast sögðu þeir Hjálmar Gíslason og Vilhjálmur Þorsteinsson sig úr stjórn Heimildarinnar af sömu ástæðu.
Skyldi engan undra að þremenningarnar telji sig ekki geta samþykkt kaupin. Þeir Hjálmar og Vilhjálmur eru nú einu sinni þekktir viðskiptamenn og annt um orðspor sitt. Þórður Snær er þrautreyndur blaðamaður og veit vafalaust að kaup á vonlausum vefmiðli kunna ekki góðri lukku að stýra. Allir virðast þeir komast að sömu niðurstöðu að engin leið sé til að samþykkja kaupin á viðskiptalegum forsendum.
Ársreikningur útgáfufélags Mannlífs er heldur enginn skemmtilestur. Félagið tapaði rúmum 30 milljónum árið 2023, þrátt fyrir að njóta 16 milljóna meðgjafar frá ríkinu í formi fjölmiðlastyrks. Skammtímaskuldir Mannlífs námu um 48 milljónum, og handbært fé einungis ríflega 360 þúsund krónur. Stjórnarmenn félagsins hljóta að hafa spurt sig áleitinna spurninga um hvort rétt væri að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta.
Allir virðast þeir komast að sömu niðurstöðu að engin leið sé til að samþykkja kaupin á viðskiptalegum forsendum.
Þetta er félagið sem Heimildin ætlar nú að bjarga, og það í óþökk þeirra stjórnarmanna sem langmesta reynslu hafa af viðskiptum. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu og hvað Heimildin ætlar sér með kaupunum.
Eitt er þó óumdeilanalega jákvætt við þessi viðskipti, en stjórnarformaður Heimildarinnar sá sérstaka ástæðu til að senda frá sér tilkynningu þess efnis að Reynir Traustason verði ekki áfram hjá Mannlífi verði af kaupunum. Reynir sjálfur segist svo ætla að hætta afskiptum af blaðamennsku.
Áratuga níðskrifum Reynis Traustasonar virðist því lokið.
Ráðgjafinn er vikulegur pistill þar sem innanbúðarmaður tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.