Myndband hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum sem sýnir hettuklædda vígamenn kveikja í jólatré sem sett hafði verið upp í bænum Suqaylabiyah en íbúar hans eru að mestu kristnir. Annað myndband hefur einnig verið birt á vegum Hayat Tahrir al-Sham, uppreisnarhópsins sem stepyti ríkisstjórn Assad-fjölskyldunnar af stóli fyrr í mánuðinum og fer nú með völdin í stærstum hluta Sýrlands, þar sem lofað er að þeim stóðu að verknaðinum verði refsað.
Samkvæmt umfjöllun Guardian báru erlendir vígamenn á vegum íslamistasamtakanna Ansar al-Tawhid ábyrgð á ódæðinu.
„Trénu verður komið aftur upp og það tendrað strax í fyrramálið,“ hefur Guardian eftir trúarleiðtoga innan hreyfingarinnar.
Hayat Tahrir al-Sham, sem á rætur að rekja til hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, hefur lofað að minnihlutahópar njóti verndar nýrra stjórnvalda.
Sjá einnig: Segir sýrlensku þjóðina þreytta og vilja fá að lifa í friði
Ahmed al-Sharaa, leiðtogi Hayat Tahrir al-Sham, hefur sagst staðráðinn í því að sameina mismunandi fylkingar og hersveitir Sýrlands í eitt og heitið kosningum á næsta ári. Hann segir þó enn of snemmt að segja til um framtíð sýrlenskra stjórnvalda.
Samkvæmt tilkynningu frá samtökunum náðist samkomulag milli ýmsra stríðandi fylkinga í dag og er stefnt að því að leysa upp vígahópa víða um landið. Markmiðið sé að sameina hópana í varnarmálaráðuneyti en óvíst er með framhaldið. Margir vígahópanna hafa gjörólíka sýn á framtíð landsins og takist það markmið er langt uppbyggingarferli framundan eftir þrettán ára borgarastyrjöld.