Fótbolti

Þjálfarinn sá rautt í mögu­lega sínum síðasta leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Paulo Fonseca var mögulega að stýra AC Milan í síðasta sinn í kvöld. Hann entist ekki út fyrri hálfleikinn.
Paulo Fonseca var mögulega að stýra AC Milan í síðasta sinn í kvöld. Hann entist ekki út fyrri hálfleikinn. Luca Amedeo Bizzarri/Getty Images

Paulo Fonseca gæti hafa verið að stýra AC Milan í síðasta sinn er liðið tók á móti Roma í ítölsku deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Hávær orðrómur hefur verið á kreiki um að Fonseca sé valtur í starfi hjá AC Milan eftir slæmt gengi liðsins á tímabilinu. Fyrir leik kvöldsins sat liðið í áttunda sæti ítölsku deildarinnar með aðeins 26 stig eftir 16 leiki.

Fonseca náði líklega ekki að koma sér í mjúkinn hjá stjórnarmönnum Mílanóliðsins í kvöld, en hann var sendur upp í stúku með tvö gul spjöld, og þar með rautt, stuttu fyrir hálfleikshléið.

Fyrra gula spjaldið fékk Fonseca á 40. mínútu þegar hann vildi fá brot úti á velli og það seinna fékk hann þremur mínútum síðar þegar lið hans fékk ekki vítaspyrnu. Þjálfarinn hafði vissulega ýmislegt fyrir sér þegar Tijjani Reijnders var felldur innan vítateigs, en missti algjörlega stjórn á skapi sínu á hliðarlínunni og var sendur upp í stúku.

Áðurnefndur Reijnders skoraði einmitt mark AC Milan snemma leiks stuttu áður en Paulo Dybala jafnaði metin fyrir gestina og þar við sat.

Niðurstaðan því 1-1 jafntefli í mögulega síðasta leik Fonseca sem þjálfari AC Milan. Liðið situr enn í áttunda sæti deildarinnar, nú með 27 stig eftir 17 leiki. Roma er hins vegar í enn verri málum í deildinni og situr í tíunda sæti með 20 stig eftir 18 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×