Viðskipti innlent

Nýskráning fólks­bíla dróst saman um rúm fjöru­tíu prósent

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Morgunumferð í Reykjavík. Nýskráning bíla dróst saman árið 2024 samanborið við árið 2023.
Morgunumferð í Reykjavík. Nýskráning bíla dróst saman árið 2024 samanborið við árið 2023. Vísir/Vilhelm

Nýskráning fólksbíla árið 2024 dróst saman um 42% samanborið við árið 2023 samkvæmt Bílgreinasambandinu. Samdrátturinn nær bæði til einstaklinga og fyrirtækja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu. 

Þar segir að alls hafi verið nýskráðir 10.243 nýir fólksbílar á árinu og var tæplega helmingur þeirra skráður sem bílaleigubílar. Flestar nýskráningar hafi átt sér stað í maí 2024 þegar 2.008 fólksbílar voru nýskráðir.

Samanburður á nýskráningum bíla síðustu sex ár.Bílgreinasambandið

Flestir nýskráðir fólksbílar á árinu voru rafmagnsbílar, meira en einn af hverjum fjórum nýskráðum bílum var rafmagnsbíll. Næstalgengustu fólksbílarnir voru díselbílar sem voru 22 prósent af öllum nýskráningum. 

Algengustu nýskráðu bílategundirnar árið 2024 voru Toytota og Kia.

Hvort er það Tesla eða Toyota? 

Einstaklingar voru skráðir fyrir 3.817 nýjum fólksbílum á árinu 2024 samkvæmt tilkynningunni. Það eru helmingi færri nýskráðir fólksbílar en árið 2023 þegar þeir voru 7.875 talsins.

Samanburður á nýskráningum bíla hjá einstaklingum undanfarin sex ár.Bílgreinasambandið

Flestar nýskráningar ársins 2024 voru í október þegar 465 fólksbílar voru nýskráðir.

Flestir nýskráðir fólksbílar á einstaklinga voru rafmagnsbílar eða tæplega helmingur. Þar á eftir voru tengiltvinnbílar. Algengustu nýskráðu tegundir einstaklinga á árinu 2024 voru Toyota og Tesla.

Almenn fyrirtæki og bílaleigur

Bílaleigubílar voru um helmingur allra nýskráðra fólksbíla á árinu. Samtals voru nýskráðir 4.904 bílaleigubílar árið 2024 sem er 30% lækkun frá fyrra ári.

Samanburður á nýskráningum hjá ökutækjaleigum undanfarin sex ár.Bílgreinasambandið

Flestir bílaleigubílar voru nýskráðir í maí 2024 og algengustu bílategundirnar voru Kia og Hyundai.

Nýskráningar fólksbíla hjá almennum fyrirtækjum (án ökutækjaleiga) hafi dregist saman um 44 prósent. Samanlagt voru 1.520 fólksbílar nýskráðir árið 2024 en 2023 voru þeir 2.695. 

Flestir þessara bíla voru nýskráðir í desember og var algengasta bílategundin Toyota.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×