Körfubolti

Frið­rik Ingi orðinn þjálfari Hauka

Sindri Sverrisson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson skrifaði undir samning sem gildir til sumarsins 2027.
Friðrik Ingi Rúnarsson skrifaði undir samning sem gildir til sumarsins 2027. Facebook/@haukarbasket

Friðrik Ingi Rúnarsson er tekinn við sem þjálfari karlaliðs Hauka í körfubolta og mun stýra liðinu í fyrsta sinn annað kvöld, í leik við Hött á Egilsstöðum í Bónus-deildinni.

Haukar greindu frá þessu í dag og segja Friðik Inga þegar hafa hafið störf, og í óða önn við að undirbúa liðið fyrir leikinn við Hött.

Friðrik Ingi, sem á að baki langan og farsælan þjálfaraferil, var síðast þjálfari kvennaliðs Keflavíkur en stýrði liðinu aðeins í nokkra mánuði áður en hann sagði upp í desember.

Hann tekur við Haukum af Emil Barja sem mun nú einbeita sér alfarið að þjálfun kvennaliðs Hauka. Emil stýrði karlaliðinu í skamman tíma eftir að Maté Dalmay var látinn fara í byrjun desember, en Maté hafði stýrt liðinu frá árinu 2021 og komið því aftur upp í efstu deild. Haukar höfðu hins vegar tapað fyrstu átta leikjum sínum í vetur þegar Maté hætti.

Undir stjórn Emils náðu Haukar að vinna tvo fyrstu leiki sína en þeir eru með fjögur stig í neðsta sæti Bónus-deildarinnar, fjórum stigum á eftir næstu fjórum liðum. Í þeim hópi er meðal annars lið Hattar svo leikurinn á Egilsstöðum annað kvöld er afar mikilvægur, nú þegar seinni helmingur deildarkeppninnar er að hefjast.

Friðrik Inga þarf vart að kynna en hann skrifaði undir samning til tveggja og hálfs árs við Hauka. Hann hefur stýrt ýmsum liðum í efstu deild karla, þar á meðal Njarðvík, Grindavík, KR, Keflavík, Þór Þorlákshöfn og ÍR, auk íslenska karlalandsliðsins. Síðast þjálfaði hann kvennalið Keflavíkur fyrir áramót, eins og fyrr segir.


Tengdar fréttir

De'Sean Parsons mætir aftur til Hauka

Bandaríkjamaðurinn De'Sean Parsons mun leik með Haukum í Bónusdeild karla eftir áramót. Á dögunum lét félagið þá Tyson Jolly og Steeve Ho You Fat fara frá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×