Þetta herma heimildir fréttastofu. Júlí Heiðar og Ágúst Þór munu stíga á svið hvor með sitt lagið í Söngvakeppninni, sem hefst þann 8. febrúar næstkomandi í Ríkisútvarpinu. Áður hefur umboðsmaður Iceguys Máni Pétursson sagt af og frá að strákasveitin vinsæla muni taka þátt í keppninni.
Keppendurnir verða svo formlega kynntir til leiks 17. janúar og hefur ríkt mikil leynd um hverjir taka þátt eins og hefð segir til um. Keppnin í ár verður með breyttu sniði eftir gríðarlega umdeilda keppni í fyrra og er úrslitaeinvígið svokallaða á bak og burt í þetta skiptið.
Þess í stað mun stigahæsta liðið í úrslitum bera sigur úr býtum. Fyrri undanúrslitin eru 8. febrúar, seinni undanúrslitin 15. febrúar og úrslitakvöldið þann 22. febrúar þar sem framlag Íslands til Eurovision í Basel í Sviss í maí verður valið.
Ágúst er ungur og upprennandi tónlistarmaður, búsettur á Akureyri. Síðastliðið sumar steig hann inn fyrir Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvara Stuðlabandsins, og kom fram með bandinu á öll stærstu útihátíðum landsins. Áður hefur Ágúst verið söngvari í hljómsveitinni Færibandinu.
Júlí Heiðar þarf vart að kynna en hann hefur um árabil verið einn dáðasti söngvari landsins og er reynslubolti í Söngvakeppninni en hann keppti síðast árið 2017 með lagið Heim ásamt Þórdísi Birnu. Hann hefur undanfarin ár verið duglegur að gefa út hugljúfa dægurlagasmelli, líkt og Ástin heldur vöku og Farfuglar. Barnsmóðir Júlí Þórdís Björk Þorfinnsdóttir hefur líka tekið þátt í Söngvakeppninni. Það gerði hún með Reykjavíkurdætrum sem komust í úrslitaeinvígið árið 2022 en lutu í lægra haldi gegn Systrum.