Leik lokið: Álftanes-Njarðvík 75-81 | Vítaklúður og von­brigði í For­seta­höllinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Khalil Shabazz (32 stig) og Dominykas Milka (23 stig) skoruðu 55 stig saman í leiknum í kvöld.
Khalil Shabazz (32 stig) og Dominykas Milka (23 stig) skoruðu 55 stig saman í leiknum í kvöld. Vísir/Diego

Njarðvíkingar sóttu tvö stig í Forsetahöllina í Bónus deild karla í körfubolta með sex stiga sigri á Álftanesi, 75-81. Heimamenn fengu fjölmörg tækifæri til að jafna leikinn undir lokin en taugarnar voru of trekktar. 

Lítið skar liðin að í fyrri hálfleik, mikil barátta var einkennandi og fínan varnarleik mátti finna hjá báðum liðum. Njarðvíkingar byrjuðu leikinn á tveimur góðum þriggja stiga skotum, en hittu svo ekki úr neinum af þrettán tilraunum sínum fyrir aftan línuna í fyrri hálfleik.

Gestirnir bættu upp fyrir það með því að ráðast á sóknarfráköst og hirtu boltann átta sinnum til baka eftir misheppnuð skot í fyrri hálfleik.

Þrátt fyrir að lenda undir í frákastabaráttunni fóru heimamenn þó með fjögurra stiga forskot inn í hálfleik, staðan þá 40-36. Að miklu leiti þökk sé Justin James sem dró vagninn sóknarlega fyrir liðið.

Seinni hálfleikur hófst síðan vel hjá heimamönnum, Justin James hélt áfram að draga vagninn sóknarlega og liðið náði upp níu stiga forystu. Njarðvík átti hins vegar frábært áhlaup undir lok þriðja leikhluta og jafnaði leikinn.

Liðið stal síðan boltanum og hefði getað komist yfir áður en tíminn rann út en skotið klikkaði, staðan því jöfn 56-56 og allt uppsett fyrir æsispennandi fjórða leikhluta.

Njarðvík byrjaði fjórða leikhlutann betur en gríðarleg spenna var á lokamínútunum og lítið skildi liðin að. Undir lok leiks voru taugarnar hins vegar of trekktar hjá heimamönnum. Þeir fengu fjölmörg tækifæri af vítalínunni til að minnka muninn og jafnvel jafna leikinn, en skotin klikkuðu.

Þeim tókst þó að minnka muninn í þrjú stig og gefa Herði Axel tækifæri til að jafna leikinn þegar um fimmtán sekúndur voru eftir en hann henti loftbolta úr horninu.

Njarðvík hirti frákastið, eins og svo oft áður í leiknum, og tókst að breikka bilið enn frekar. Lokatölur 75-81.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira