Leik lokið: Grindavík-Haukar 79-71 | Tor­sóttur skyldusigur Grind­víkinga

Siggeir Ævarsson skrifar
Daniel Mortensen var öflugur hjá Grindvíkingum í kvöld með 15 stig, 8 fráköst, 7 varin skot og 6 stoðsendingar.
Daniel Mortensen var öflugur hjá Grindvíkingum í kvöld með 15 stig, 8 fráköst, 7 varin skot og 6 stoðsendingar. Vísir/Anton

Grindvíkingar lentu í vandræðum með botnlið Hauka á heimavelli í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld en lönduðu að lokum átta stiga torsóttum sigri, 79-71.

Það voru tvö lið í þröngri stöðu sem mættust í Smáranum í kvöld. Grindvíkingar í krísu að eigin sögn og Haukar á botni deildarinnar þrátt fyrir tvo sigra í röð. Sigur algjört lykilatriði fyrir bæði lið upp á framhaldið að gera.

Leikurinn hófst fremur stirðlega hjá báðum liðum, mögulega skjálfti í mönnum enda töluvert í húfi. Grindvíkingar náðu þó takti varnarlega og upp tíu stiga forskoti og leiddu með sjö eftir fyrsta leikhlutann sem Hilmir Arnarson lokaði með þrista, staðan 25-18.

Munurinn hélst um það í þeirri tölu næstu tíu mínútur, Grindvíkingar skrefi á undan en Haukar aldrei langt undan. DeAndre Kane var mættur aftur eftir langt jólafrí og skoraði 13 stig í fyrri hálfleik, augljóst að Grindvíkingar hafa saknað hans.

Staðan í hálfleik 47-39 eftir að Oddur Rúnar Kristjánsson setti flautukörfu eftir sóknarfrákast. Hans fyrstu stig í leiknum sem komu á hárréttum tíma.

Haukar hófu seinni hálfleikinn af krafti, skoruðu fimm fyrstu stigin og minnkuðu muninn í þrjú stig. Það var þó það næst sem Haukar komust Grindvíkingum það sem eftir lifði leiks. Heimamenn náðu að halda muninum eftir þetta um það bil í tíu stigum með smá sveiflum en sigurinn var alls sannfærandi.

Sóknarleikur beggja liða í loka leikhlutanum var afskaplega dapur en Grindvíkingar skoruðu ekki körfu úr opnum leik fyrr en rúmar fimm mínútur voru liðnar af honum. Þeir náðu þó að halda út og kláruðu þetta á seiglunni.

Það má færa þennan sigur til bókar sem skyldusigur fyrir Grindavíkinga á botnliði deildarinnar en það er ljóst að krísustjórnun Jóhanns Þórs er ekki lokið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira