Erlent

Sóttu sér meira en milljón ára gamlan ís á Suður­skauts­landinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Ískjarni úr borun vísindamannanna á Little Dome C á austanverðu Suðurskautslandinu.
Ískjarni úr borun vísindamannanna á Little Dome C á austanverðu Suðurskautslandinu. AP/PNRA/IPEV Beyond Epica

Alþjóðlegur hópur vísindamanna hefur náð að sækja eitt elsta ískjarnasýni í heimi djúpt úr Suðurskautslandsísnum. Ísinn er sagður að minnsta kosti 1,2 milljóna ára gamall. Hann getur varpað skýrara ljósi á hvernig lofthjúpur og loftslag jarðar hefur breyst.

Það tók hóp sextán vísindamanna fjögur sumur að bora 2,8 kílómetra niður á berggrunn til þess að sækja sér sýnið. Hitinn var að meðaltali um -35 gráður á Celsíus á meðan á verkinu stóð, að sögn AP-fréttastofunnar. Sam hópur hafði áður náð um 800.000 ára gömlum ískjarna.

Loftslagsvísindamenn nota svokölluð veðurvitni eins og ískjarna til þess að rannsaka hvernig lofthjúpurinn og loftslag jarðar hefur breyst. Í ísnum má finna bólur af lofti frá þeim tíma sem ísinn fraus. Þannig er hægt að mæla efnasamsetningu þess, meðal annars styrk gróðurhúsalofttegunda eins og koltvísýrings og metans.

„Þökk sé ískjarnanum munum við geta skilað hvað hefur breyst með gróðurhúsalofttegundir, efni og ryk í lofthjúpnum,“ segir Carlo Barbante, ítalskur jöklafræðingur og einn stjórnenda teymisins sem boraði eftir kjarnanum.

Rannsóknir hópsins á fyrri ískjarnanum sýna að styrkur koltvísýrings hefur ekki verið eins hár í lofthjúpi jarðar og nú í að minnsta kosti hundruð árþúsunda.

„Nú sjáum við styrk koltvísýrings sem er fimmtíu prósent hærri en hæstu gildin sem við höfum séð síðustu 800.000 árin,“ segir Barbante.

Richard Alley, loftslagsvísindamaður við Ríkisháskóla Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, segir sérstaklega spennandi að teymið hafi borað alla leið niður á berggrunn suðuskautslandsins. Mögulega muni menn þá læra meira um sögu jarðar en bara af ískjörnunum.

„Þetta er virkilega, virkilega ótrúlega stórkostlegt. Þau eiga eftir að komast að stórkostlegum hlutum,“ segir Alley sem tengist hópnum ekki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×