Körfubolti

„Hann hefur náð að fela hann varnar­lega al­veg fárán­lega vel“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dominykas Milka var erfiður viðureignar fyrir David Okeke í leik Álftaness og Njarðvíkur.
Dominykas Milka var erfiður viðureignar fyrir David Okeke í leik Álftaness og Njarðvíkur. vísir / diego

Hinn margreyndi Dominykas Milka var til umræðu í þættinum Bónus Körfuboltakvöld í gærkvöldi en hann átti góðan leik þegar Njarðvík vann Álftanes í Bónus-deildinni á fimmtudag.

Njarðvík vann góðan útisigur á Álftnesingum í Bónus-deild karla í körfubolta á fimmtudag. Í þættinum Bónus Körfuboltakvöld fóru þeir Stefán Árni Pálsson, Hermann Hauksson og Jón Halldór Eðvaldsson yfir sigur Njarðvíkinga og tóku frammistöðu Dominykas Milka sérstaklega fyrir.

„Njarðvík gjörsamlega ruslaði baráttunni inni í teig. Þeir vinna frákastabaráttuna með tuttugu fráköstum,“ sagði Stefán Árni og Hermann tók undir.

„13-2 í sóknarfráköstum er eitt og sér óboðlegt. Það er ekki eins og Álftanes sé með eitthvað lágvaxið lið og litla kalla inni í teig,“ sagði Hermann og sagði þessa tölfræði hafa komið sér á óvart.

Dominykas Milka skoraði 23 stig í leiknum og tók þar að auki 10 fráköst. Jón Halldór Eðvaldsson var ánægður með Milka í liði Njarðvíkur.

„Hann er búinn að vera ógeðslega flottur fyrir þetta Njarðvíkurlið og fengið endurnýjun lífdaga. Hann var ekki góður fyrir Keflavík  síðasta tímabilið þar, hverju sem það er um að kenna. Hvort það var hann sjálfur eða eitthvað annað,“ sagði Jón Halldór.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld: Nýtt líf Dominykas Milka

„Hann lítur út fyrir að vera geggjaður varnarlega sem hann er svo sannarlega ekki. Þetta er bara „coaching brilliance“ fyrir mér,“ bætti Jón Halldór við og vísar þar til Rúnars Inga Erlingssonar þjálfara Njarðvíkur.

Alla umræðu þeirra félaga um Milka má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Þar má meðal annars heyra skemmtilega sögu Jóns Halldórs um það þegar Jonni sá um að semja við Milka fyrir hönd Keflavíkur á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×