Erlent

Máluðu gröf Charles Darwin í mót­mæla­skyni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lee og Bligh klæddust bolum merktum Just Stop Oil.
Lee og Bligh klæddust bolum merktum Just Stop Oil. getty/kristian buus

Tvær konur voru handteknar í London eftir að hafa málað á gröf náttúrufræðingsins Charles Darwin. Þær voru á vegum breska loftlagsaðgerðahópsins Just Stop Oil. Hækkun meðalhitastigsins í heiminum árið 2024 náði yfir 1,5°C mörkin.

Alyson Lee, 66 ára, og Di Bligh, 77 ára, máluðu „1,5 er dautt“ með krítarmálningu á gröf náttúrufræðingsins Charles Darwin í Westminister Abbey. Setningin er vegna fregna sem bárust í síðustu viku að hlýnun jarðar hefði náð yfir 1,5°C. Þar af leiðandi hefur markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C, ekki náðst.

Konurnar voru báðar handteknar vegna gruns um saknæmt tjón í kirkjunni. Samkvæmt Guardian sagði talsmaður kirkjunnar að krítarmálningin myndi varanlega skemma gröfina.

„Við erum að reyna að fá stjórnvöld til að bregðast við gróðurhúsaáhrifunum. Þau eru ekki að gera nóg,“ sagði Lee. 

Þá sagði Bligh að gröf Darwin hefði orðið fyrir valinu þar sem að hann „myndi snúa sér í gröfinni vegna sjöttu fjölda-útrýmingunum sem eru að eiga sér stað núna.“

Í umfjöllun Guardian kom einnig fram að síðasta föstudag staðfesti Copernicus-loftslagsþjónustu Evrópusambandsins að árið 2024 hefði verið fyrsta árið þar sem meðalhiti í heiminum var 1,5°C hærri en hitastigið fyrir iðnbyltingu.

Charles Darwin var breskur náttúrufræðingur sem meðal annars setti fram kenninguna um náttúruval.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×