Þórður greindi sjálfur frá þessu í færslu á Facebook.
Þórður Snær Júlíusson skipaði þriðja sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum 30. nóvember síðastliðinn. Þegar tæplega þrjár vikur voru til kosninga voru gamlar bloggfærslur Þórðar Snæs, sem lýstu unggæðingslegum og óviðurkvæmilegum viðhorfum í garð kvenna, rifjaðar upp í Spursmálum Morgunblaðsins.
Þórður Snær hélt úti bloggsíðu sem bar heitið thessarelskur.blogspot.com og skrifaði þar meinfýsna pistla í garð kvenna undir dulnefninu „þýska stálið.“
Nokkrum dögum síðar greindi Þórður frá því að hann hyggðist ekki taka þingsæti yrði hann kjörinn á þing. Hann baðst afsökunar á því að hafa skrifað með þessum hætti og kvaðst gera sér grein fyrir því að slík skrif og sjónarmið hafi valdið miklum skaða.
Segir af sér þingmennsku í febrúar
Í færslu sinni á Facebook kveðst Þórður munu segja af sér þingmennsku við fyrsta tækifæri, sem verður þegar þing kemur saman 4. febrúar næstkomandi.
Þá verði jafnframt formlega taka við stöðu framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar, en hann er þegar byrjaður að starfa sem slíkur.
„Ég hlakka mjög til að hjálpa við að breyta samfélaginu til hins betra með öflugri ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og frábærum hópi þingmanna.“
Fréttin hefur verið uppfærð