Arctic Therapeutics (ATx) var stofnað af Dr. Hákoni Hákonarsyni, lækni og sérfræðingi í lungna- og genarannsóknum við Center of Applied Genomics (CAG) í Fíladelfíu í Bandaríkjunum, og syni hans Ívari Hákonarsyni. Lyfjaþróun fyrirtækisins byggir á 20 ára erfðarannsóknum Hákonar, meðal annars í samstarfi CAG.
„Fjármögnunin er mikilvægur áfangi á vegferð okkar við að þróa öruggar og árangursríkar lyfjameðferðir við sumum af erfiðustu sjúkdómum veraldar, þar á meðal heilabilun,“ segir Ívar, sem er forstjóri Arctic Therapeutics. „Fjárfestahópurinn kemur með djúpa reynslu, bakgrunn og sérfræðiþekkingu að borðinu, sem mun nýtast okkur sérstaklega vel til að tryggja framgang félagsins í því vaxtarferli sem framundan er,” bætir hann við.
Fram kemur í tilkynningu Arctic Therapeutics að um sé að ræða svonefnda A-fjármögnun (e. Series A), sem er þá fyrsta vísisfjármögnun félagsins, upp á samtals 26,5 milljónir evra, jafnvirði um 3,9 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi.
Fjármögnunin er mikilvægur áfangi á vegferð okkar við að þróa öruggar og árangursríkar lyfjameðferðir við sumum af erfiðustu sjúkdómum veraldar, þar á meðal heilabilun.
Talsverð umframeftirspurn var í fjármögnunarlotunni en ásamt Sanos Group og fjárfestingafélaginu Kaldbaki, sem er í eigu Samherja-fjölskyldunnar, var um ræða meðal annars EIC Fund, svissneska félagið Cerebrum DAO og bandaríska auðmanninn Jeffrey Lurie, eiganda Philadelphia Eagles í NFL-deildinni. Þá samanstendur fjárfestahópurinn jafnframt af svonefndum snemmfjárfestum og meðstofnendum líftæknifélaganna Kerecis og Chemometec, ásamt ýmsum íslenskum einka- og fagfjárfestum.
Forstjóri Sanos Group, Jeppe Ragnar Andersen, tekur sæti í stjórn fyrirtækisins fyrir hönd nýrra hluthafa.
Gunnlaugur Árnason, framkvæmdastjóri stefnumótunar, samskipta og markaðsmála, segist aðspurður í samtali við Innherja ekki geta upplýst um hversu stóran hlut hinir nýju fjárfestar eignast í Arctic Therapeutics eftir hlutfjáraukninguna – og þá um leið hvert var hlutafjárvirði félagsins við fjármögnunina.
Viðmælendur Innherja sem þekkja til vísisfjárfestinga segja hins vegar algengt að seldur sé um 20 til 25 prósenta hlutur til nýrra fjárfesta í slíkri A-fjármögnunarlotu. Arctic Therapeutics var fyrir hlutafjáraukninguna í 100 prósent eigu samnefnds bandarísks félagsins en ásamt þeim feðgum Hákoni og Ívari eru aðrir eigendur þess einkum bandarískir sprotafjárfestar sem komu að fjármögnun þess á fyrri stigum. Félagið hefur ekki áður sótt sér hlutafé frá utanaðkomandi einkafjárfestum fyrr en nú.
Fjármagnið sem fyrirtækið hefur tryggt sér verður fyrst og fremst nýtt til þess að hefja frekari klínískar rannsóknir á tveimur af fremstu lyfjum félagsins til meðferðar við heilabilun (e. dementia) og húðbólgusjúkdómum.
Arctic Therapeutics fékk leyfi frá Lyfjastofnun Íslands og Lyfjastofnun Evrópu á síðasta ári til þess að framkvæma klíníska skráningarrannsókn á AT-001, lyfi félagsins til meðferðar á arfgengri íslenskri heilablæðingu, sem er sjaldgæft afbrigði ættgengrar heilabilunar. Fyrirtækið stefnir að því að áframþróa lyfjameðferðina við víðara mengi heilabilunarsjúkdóma, þar á meðal við Alzheimer-sjúkdómnum.
Við bindum þess vegna vonir við að samhliða nýjustu blóðgreininarprófum, sem gerir kleift að greina ákveðnar prótínútfellingar áður en einstaklingar þróa með sér alvarlega heilabilun, muni lyfjameðferð okkar geta komið í veg fyrir að einstaklingar verði fyrir heilabilun.
Gunnlaugur segir við Innherja að með hlutafjáraukningunni upp á tæplega fjóra milljarða sé félagið búið að fullfjármagna allar klínískar rannsóknir til næstu þriggja ára. Samtals starfa um tuttugu manns hjá Arctic Therapeutics sem dreifast á starfsstöðvar fyrirtækisins í Reykjavík, Akureyri og Fíladelfíu. Gunnlaugur nefnir að vilji Hákonar standi til þess að geta búið til frekari verðmæt störf á Akureyri, þar sem nú er meðal annars rekin fyrir íslenskan erfða- og ættfræðigrunn og klínískt vottaða rannsóknarstofu, en tekur fram að félagið sé ekki að mæla árangur sinn í fjölgun starfa.
Markaður með lyf fyrir heilabilun gæti verið 35 milljarðar dala
Í tilkynningu frá Arctic Therapeutics er bent á að samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) er heilabilun regnhlífarhugtak yfir um 200 sjúkdóma sem hafa áhrif á minni sem veldur skerðingu á getu einstaklinga til að sinna daglegum verkefnum lífsins, auk þess að vera sjöunda algengasta dánarorsök heims. Stofnunin áætlar að um tíu milljónir manna greinist með heilabilun árlega, og talið er að árlegur samfélagslegur kostnaður vegna heilabilunar á heimsvísu verði 2,8 billjónir árið 2030. Greinendur reikna með að markaður fyrir lyf til meðferðar við heilabilun verði í kringum 35 milljarðar Bandaríkjadala árið 2030.
„Töluverðar framfarir hafa verið á greiningu og meðferð heilabilunarsjúkdóma nýverið, meðal annars á þróun greiningarprófa sem mæla mýlildis-prótínútfellingar í blóði. Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur einnig samþykkt lyfjameðferðir frá alþjóðlegu lyfjarisunum Biogen og Eli Lilly, sem brjóta niður prótínútfellingar í heila sem rannsóknir sýna að hafa áhrif á framgang heilabilunar,“ segir í tilkynningunni.
Hákon nefnir að alvarlegar aukaverkanir lyfja Biogen og Eli Lilly séu ákveðið áhyggjuefni og því mikilvægt að finna ný úrræði.
„Rannsóknir okkar sýna að AT-001 virðist ekki einungis brjóta niður skaðlegar prótínútfellingar, eins og við sjáum í ættgengu íslensku heilablæðingunni, heldur koma í veg fyrir að þær myndist til að byrja með. Einnig leysir AT-001 megin áskoranir lyfjameðferða Biogen og Eli Lilly, en sterkar vísbendingar eru um að okkar lyf sé laust við alvarlegar aukaverkanir,“ segir Hákon, og bætir við:
„Lyfið kemst örugglega yfir blóðheilaþröskuldinn (e. blood-brain-barrier) og inn í frumur heilans án þess að valda skaða. Við bindum þess vegna vonir við að samhliða nýjustu blóðgreininarprófum, sem gerir kleift að greina ákveðnar prótínútfellingar áður en einstaklingar þróa með sér alvarlega heilabilun, muni lyfjameðferð okkar geta komið í veg fyrir að einstaklingar verði fyrir heilabilun þar sem meðferðinni fylgja ekki alvarlegar aukaverkanir og mögulegt er að ávísa slíkri meðferð áður en alvarleg einkenni koma fram.“
Hvatinn að þróun AT-001, eins og sagt er frá í tilkynningu, var sá að systurdóttir eiginkonu Hákonar, Katrín Björk Guðjónsdóttir, lamaðist eftir heilablæðingu, en hún greindist með erfðagallann í kjölfarið. Svipuð afbrigði arfgengrar heilablæðingar af völdum mýlildismeina hafa verið greind í Hollandi, Bretlandseyjum og á Írlandi. Þar er þó um að ræða aðra stökkbreytingu á öðrum litningi en hjá Íslendingum.
Fjármagnið verður einnig nýtt til þess að framkvæma klínískar rannsóknir á AT-004 til meðferðar við húbólgusjúkdómum, svo sem húðbólum (e. acne vulgaris), ofnæmisexemi (e. atopic dermatitis) rósaroða (e. rosacea) og psoriasis. Fyritækið stefnir að því að hefja fasa IIa rannsókn í Evrópu á þessu ári, með það að markmiði sýna fram á öryggi og virkni í meðhöndlun á húðbólum áður en rannsóknir verða útvíkkaðar til að sannreyni virkni í fleiri húðbólgusjúkdómum. Áætlað er að markaðurinn fyrir lyf til meðferðar við þessum sjúkdómum verði rúmlega 100 milljarðar Bandaríkjadala árið 2030.
Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance og lögræðistofan BBA//Fjeldco veittu Arctic Therapeutics aðstoð í fjármögnunarferlinu.