Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kallaði eftir sparnaðarráðum í rekstri ríkisins í Samráðsgátt stjórnvalda í upphaf árs og fóru tillögurnar strax að hrannast inn. Fram kom í lýsingu gáttarinnar að árinu í ár sé áætlað að útgjöld íslenska ríkisins verði um 1.550 milljarðar króna eða 16 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
Tillögurnar sem hafa borist eru jafnmismunandi og þær eru margar. Meðal þeirra er að Ísland gangi úr Atlantshafsbandalaginu, fækka sendiráðum og stofnunum og aðstoðarmönnum ráðherra. Margar tillögurnar snúa einnig að rekstri Ríkisútvarpsins eða jafnvel tilvist þess. Flestir velja þó að gera tillögur sínar ekki aðgengilegar almenningi.
Kristrún Frostadóttir hefur sagst vongóð um að margar gagnlegar tillögur berist í gáttina og að almenna þekkingin reynist gjarnan vel.
„Okkur finnst skipta máli að eiga víðtækt samráð,“ hefur Kristrún sagt. Ríkisstjórnin ætlar að vinna árið 2025 eftir samþykktu fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar en hefur farið mikinn í vangaveltum um hagræðingu.
Fram hefur einnig komið að tillögurnar verði greindar með gervigreind í fyrsta fasa. Þá hefur þegar verið skipaður þriggja manna hagræðingarhópur sem taki hugmyndirnar allar saman.