Körfubolti

Ein stærstu og óvæntustu skipti sögunnar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Enginn átti von á að Dallas Mavericks myndu vilja losa sig við Luka Doncic. En Anthony Davis hefur greinilega heillað.
Enginn átti von á að Dallas Mavericks myndu vilja losa sig við Luka Doncic. En Anthony Davis hefur greinilega heillað. Getty

Los Angeles Lakers og Dallas Mavericks hafa snúið NBA-heiminum á hvolf með skiptum sem senda Luka Doncic til Lakers og Anthony Davis til Mavericks.

Skiptin virðast koma upp úr þurru en Dave McMenamin hjá ESPN greindi frá dílnum í nótt.

Auk Luka Doncic munu Lakers einnig fá kraftframherjana Maxi Kleber og Markieff Morris meðan framherjinn Max Christie fylgir Davis til Dallas ásamt valrétti í fyrstu umferð árið 2029. 

Þá mun Utah Jazz einnig vera viðriðið skiptin og fá frá Lakers hinn unga Jalen Hood-Schifino og valrétt í annarri umferð í nýliðavalinu í ár. Sá valréttur kemur upprunalega frá Clippers. Þá senda Dallas einnig valrétt í annarri umferð í ár til Utah.

„Ég trúi því að vörn vinni titla,“ sagði Nico Harrison, framkvæmdastjóri Dallas Mavericks, við ESPN. „Ég trúi því að fá „All-Defensive“ miðherja og „All-NBA“ leikmann með varnarhugarfar gefi okkur meiri séns. Liðið er byggt til að vinna núna og í framtíðinni.“

Komið flestum á óvart

Skiptin hafa komið flestum öðrum framkvæmdastjórum deildarinnar á óvart þar sem Doncic hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar og talinn ósnertanlegur. Skiptin komu einnig LeBron í opna skjöldu sem og öðrum leikmönnum og þjálfurum liðanna.

Það var hins vegar Dallas-liðið sem bauð hinn 25 ára Doncic og þurftu Lakers ekki að hugsa sig tvisvar um. Hann mun þar spila með og taka við af LeBron James sem er núverandi andlit liðsins.

Stór hluti leikmannanna sem verið er að senda á milli eru hins vegar meiddir. Doncic hefur verið meiddur í nokkrar vikur vegna tognunar í kálfa og óvíst hvenær hann snýr aftur á völlinn meðan Davis tognaði í kviðvöðva á þriðjudag og missir af nokkrum leikjum. Þá eru bæði Kleber og Hood-Schifino líka meiddir.

Hinn 25 ára Doncic er á sínu sjöunda tímabili í NBA og er með meðaltöl upp á 28.1 stig, 8.3 fráköst og 7.8 stoðsendingar í 22 leikjum. Hann var valinn þriðji í nýliðavalinu 2018 og hefur verið einn allra besti leikmaður deildarinnar síðan. Hins vegar hefur hann verið töluvert meiddur og ku það vera ástæðan fyrir því að Dallas-liðið ákvað að skipta honum.

Hinn 31 árs Davis er líka dálítill meiðslapési þó hann hafi verið hraustur í ár. Hann er á sínu þrettánda tímabili í NBA, var valinn fyrstur árið 2012 af New Orleans Pelicans og spilaði þar í sjö tímabil áður en honum var skipt til Los Angeles Lakers þar sem hann vann titilinn árið 2020. Hann er með meðaltöl upp á 25.7 stig, 11.9 fráköst, 3.4 stoðsendingar og 2.1 blokk í 42 leikjum. Davis er einn besti varnarmaður deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×