Eftir kosningar 2022 sagði Líf Vinstri græn ætla að standa utan meirihlutasamstarfs. Meirihlutinn féll í þeim kosningum og hún vildi axla þá ábyrgð. Myndu hlutirnir breytast myndi hún líka axla þá ábyrgð.
„Ég er í samtölum og við erum að tala saman, við sem vorum skilin eftir, en það liggur ekkert fyrir,“ segir Líf.
Hún segist ekkert hafa heyrt af meirihlutaviðræðum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Viðreisnar og Flokks fólksins.
„Mér finnst þetta skelfilegt og hræðilegt. Mér finnst þetta vanvirðing við verkefni borgarinnar að vera með eitthvað svona „sóló stönt“. Þetta kemur líka á alversta tíma. Lóðbeint inn í kennaraverkföll sem eru á viðkvæmu stigi. Einar er bara að hugsa um sjálfan sig og engan annan.“
Hún segir ákvörðunina „örvæntingarfullt útspil“ og það sé fráleitt og rangt að Heiða Björg Hilmisdóttir oddviti Samfylkingarinnar hafi verið að skoða það að mynda meirihluta til vinstri.
„Þetta er úr einhverjum slúðurdálki í Viðskiptablaðinu og er rangt. Heiða getur ekki myndað meirihluta til vinstri nema að tala við mig eða Sósíalista og hún hefur ekki gert það. Þetta er hönnuð atburðarás,“ segir Líf.
Engin ástæða til að slíta
Hún segist ekki hafa orðið vör við verulegan ágreining í meirihlutanum.
Hann hefur enga pólitíska ástæðu til að sprengja þennan meirihluta. Bara af því hann veldur ekki verkefninu, stendur sig ekki vel og mælist illa. Þau eru með meirihlutasáttmála og flugvöllurinn er hvort eð er ekki að fara neitt. Það verður ekki afgreitt á þessu kjörtímabili, sem dæmi.
Hann hefur líka nefnt leikskólamál í þessu samhengi.
„Það er algjörlega fráleit afstaða. Formaður skóla- og frístundaráðs er Framsóknarkona þannig hann er að gefa algjöran skít í hana. Hann er ekki einu sinni í samtali við flokksfélaga sína. Þau voru á þorrablóti og vissu ekkert. Þetta er bara gamli tíminn. Svona voru stjórnmálin þegar Villi Vill var í borginni og ég hafna þessu. Þetta er andlýðræðislegt og mér finnst þetta óábyrgt,“ segir Líf að lokum og á þá við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem var borgarstjóri 2006 til 2007 en sat í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn um árabil.