Skoðun

Virðum kennara – þeir móta fram­tíðina

Mathias Bragi Ölvisson skrifar

Ég er ekki kennari, en ég hef verið grunnskólanemandi og eitt sinn langaði mig til að verða kennari. Ég ákvað þó á endanum að fara aðra leið, því mér fannst kjör kennara og starfsskilyrði ekki nægilega aðlaðandi. Ég er í Háskóla Íslands að leggja stund á hagfræði, en ég hefði aldrei komist þangað án kennara sem veittu mér leiðsögn, hvöttu mig áfram og kenndu mér að beita gagnrýnni hugsun. Það er því sorglegt að kennarar njóta ekki þeirrar virðingar og launakjara sem endurspegla það þjóðhagslega verðmæti sem þeir skapa.

Kennarar eru burðarás lýðræðislegra samfélaga. Þeir kenna börnum að lesa, skrifa, reikna og tjá sig – en umfram allt efla þeir gagnrýna hugsun, sem er forsenda virkrar þátttöku í samfélaginu. Hvernig getum við tryggt sterkar lýðræðisstofnanir ef kennarar geta ekki sinnt hlutverki sínu við að mennta unga kynslóð og notið virðingar og mannsæmandi launa?

Menntakerfið er líka grunnstoð hagvaxtar. Án þess getum við ekki byggt upp samfélag sem stenst kröfur framtíðarinnar. Það eru kennarar í grunnskólum sem leggja grunninn að þekkingu og hæfni sem síðar nýtist í nýsköpun, tækniþróun og verðmætasköpun. Vanræksla menntunar í dag kostar okkur framtíðina.

Við verðum að endurmeta afstöðu okkar til kennarastarfsins. Kennarar eru sérfræðingar í menntun barna, og rétt eins og við treystum heilbrigðisstarfsfólki fyrir lífi okkar, treystum við kennurum fyrir framtíðinni. Við verðum að greiða þeim laun sem endurspegla mikilvægi starfsins og veita þeim skilyrði til að sinna því af fagmennsku og metnaði. Það er óásættanlegt að menntakerfið byggi á ómetanlegu starfi kennara, en þeir þurfi sjálfir að berjast fyrir lágmarksviðurkenningu í formi launa og starfsumhverfis. Ef við metum framtíðina, verðum við að virða kennara í verki.

Því það eru viðsjárverðir tímar, besta vörnin eru menntaðir borgarar.

Krefjumst betri kjara fyrir kennara. Krefjumst eflingar menntakerfisins.

Höfundur er hagfræðinemi við Háskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

Tákn­mál

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir skrifar

Sjá meira


×