„Það er þegar þú skynjar heiminn en svona gengur og gerist. Þú heyrir raddir eða sérð sýnir. Það hefur áhrif á talmáta þinn,“ segir Elín Ebba um það hvað geðrof sé.
Það séu margir sem skynji heiminn með öðrum hætti en séu samt sem áður í vinnu eða skóla.
„Þau geta tekist á við lífið en það er þegar þetta fer að raska lífinu, þannig að þú getur ekki tekist á við daglegar athafnir, sem þetta fer svona yfir í eitthvað sem við köllum sjúkdóm. En það er fólk sem heyrir raddir og það truflar það ekki neitt. Það lærir að lifa með þessu,“ segir Elín Ebba og að það verði hluti af þeirra persónuleika.
Það sem fólk heyri í fréttum um geðrof í tengslum við einhver voðaverk sé það líklega þannig að raddirnar hafi tekið yfir og séu farnar að stjórna manneskjunni. Í verstu tilfellunum endi það með voðaverki.
„Þetta gerist oft í bernsku og er oft afleiðing af áföllum.“
Elín Ebba segir „venjulegt fólk“ vera með varnir til að verja sjálfið svo við verðum ekki döpur þegar við fáum gagnrýni eða eitthvað slíkt. Lendi fólk í mörgum stórum áföllum með stuttu millibili hafi það ekki lengur orkuna sem þarf til að verja sig með þessum hætti.
„Þá bara minnkar orkan í varnarhættina og í staðinn förum við að breyta raunveruleikanum til að lifa af.“
Raddirnar taki yfir
Hún segir allar raddirnar hafa tilgang en fyrir þau sem hafi ekki upplifað geðrof sé skiljanlegt að fyrir þeim hljómi það óskiljanlegt.
Hún segir fólk líka geta farið í geðrof við það að neyta vímuefna auk þess sem ADHD lyf geti framkallað geðrof. Lyfin séu í sjálfu sér ekki slæm heldur geti bara ekki allir meðtekið þau.
Hún segir mikilvægt að fólk í geðrofi sé ekki einangrað. Sé það einangrað í langan tíma sé líklegra að raddirnar taki yfir.
Eigi alls ekki að vera ein
„Þess vegna er svo mikilvægt að svona einstaklingar, sem eru að fást við þetta, sérstaklega ef raddirnar eru að segja þeim að gera hluti sem ekki eru viðurkenndir í samfélaginu, að láta þá ekki afskipta. Það gerir það alltaf verra.“
Hún segir það oft hjálpa fólki í geðrofi að ræða við aðra sem hafa lent í því sama. Lyf virki ekki með sama hætti fyrir alla. Sumir einfaldlega vilji lifa með röddunum eða „sjúkdómnum“ og læri að gera það. Elín Ebba segir að það þurfi að gefa fólki val um úrræði og meðferð.