Reykjavíkurveldin KR og Valur mætast í 18. umferð Bónus deildar karla á föstudagskvöldið kemur. Hvert stig skiptir býsna miklu máli í gríðarjafnri deildinni og berjast nánast öll lið deildarinnar um efstu átta sætin, og sæti í úrslitakeppninni.
Þrátt fyrir að andi gjarnan köldu milli liðanna tveggja verður ástin við völd á föstudag. KR-ingar ætla að bjóða upp á sérstaka rómantíska miða á leik föstudagsins þar sem rós fæst með miðakaupunum.
Rígurinn heldur sér þó við blómasöluna þar sem KR-ingar varast það sérstaklega að rósirnar verði ekki rauðar, í lit Vals. Þess í stað fást hvítar rósir með miðanum, sem hægt er að kaupa í Stubbi. Gestir geti þannig því tryggt sér rómantíska kvöldstund með betri helmingnum án þess að eiga í hættu að blómin tóni við andstæðinga Vesturbæinga.
Tveimur stigum munar á liðunum tveimur í deildinni og mikið undir. Valur er jafnt Grindavík í 4.-5. sæti með 18 stig en KR í 7.-9. sæti með 16 stig. Átta efstu liðin fara í úrslitakeppnina í vor.
Leikurinn er klukkan 19:30 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Bónus Körfuboltakvöld gerir alla umferðina í Bónus deildinni upp í kjölfarið klukkan 21:20.