Erlent

Fékk að vera á­fram í Þýska­landi eftir höfnun

Samúel Karl Ólason skrifar
Að minnsta kosti eitt barn er meðal þeirra sem árásarmaðurinn ók á.
Að minnsta kosti eitt barn er meðal þeirra sem árásarmaðurinn ók á. AP/Matthias Balk

Maðurinn sem ók inn í hóp fólks í München í Þýskalandi í morgun sótti um hæli í Þýskalandi árið 2016. Umsókninni var hafnað en hann fékk þrátt fyrir það undanþágu frá brottvísun.

Maðurinn sem er 24 ára gamall og frá Afganistan, særði að minnsta kosti 28 sem voru á mótmælafundi verkalýðsfélags í morgun. Nokkrir eru sagðir í alvarlegu ástandi

Lögreglan hefur nefnt árásarmanninn sem Farhad N, en hann er sagður hafa búið í München og var þekktur af lögregluþjónum vegna smáglæpa. Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, segir að árásarmanninum verði að refsa og vísa úr landi, eins fljótt og auðið er, samkvæmt fréttum DW.

„Þetta er hræðilegt,“ sagði Scholz við blaðamenn í dag. „Frá mínum sjónarhóli er það skýrt, að árásarmaðurinn getur ekki reitt sig á nokkurskonar miskunn. Það verður að refsa honum og hann verður að yfirgefa landið.“

Sjá einnig: Segja að um á­rás sé að ræða og 27 eru særðir

Nancy Faeser, innanríkisráðherra, hefur slegið á svipaða strengi og hefur heitið harðri refsingu. Hún benti á að „enn einu sinni“ hefði ungur maður frá Afganistan framið árás sem þessa og sagði lög um brottvísanir glæpamanna hafa verið hertar verulega. Nú þyrfti að framfylgja þeim.

Stutt er í kosningar í Þýskalandi og eru málefni farand- og flóttafólks mjög umfangsmikil í umræðunni fyrir kosningarnar. Horfur eru á því að öfgahægriflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) verði næststærsti flokkurinn á þinginu eftir kosningarnar. Hinir flokkarnir á þingi hafa fram að þessu hafnað öllu samstarfi við flokkinn.

Markus Söder, forsætisráðherra Bæjarlands, sagði í morgun að árásin í München í morgun sýndi fram á að þörf væri á grundvallarbreytingum í Þýskalandi.

„Þetta er ekki fyrsta árásin af þessu dagi. Samkennd og það að sætta sig við fortíðina er mikilvægt en grundvallarbreytingar þurf að eiga sér stað í Þýskalandi,“ sagði Söder.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×