Skoðun

Græn borg

Auður Elva Kjartansdóttir skrifar

Þrjú stór tré við heimilið eða dvalarstað, þrjátíu prósent laufþekja í hverju hverfi og aldrei meira en þrjú hundruð metrar í næsta græna svæði. 3-30-300 þumalputtareglan gæti verið uppskrift að betra borgarumhverfi.

Það var bæði gleðilegt og eilítið sorglegt að lesa nýja skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um trjágróður og grænar lausnir í þéttbýli.

Mikilvægi trjágróðurs í þéttbýli og gagnsemi hans er vel þekkt og rannsakað. Tré veita verðmæta vistkerfisþjónustu, styðja lífríkið og hafa afar jákvæð áhrif á lýðheilsu. Rannsóknir hafa sýnt að tré draga úr loftmengun, bæta andlega líðan, draga úr streitu og geta jafnvel tengst lægri tíðni hjarta- og æðasjúkdóma.

Á sama tíma er dapurlegt að sjá hve langt við Íslendingar erum á eftir frændþjóðum okkar. Þrátt fyrir að aðstæður til trjáræktar hér á landi séu ágætar, stöndum við langt að baki Færeyingum, hvað þá öðrum Norðurlandaþjóðum, ef Grænlendingar eru undanskildir.

Á Íslandi eru mun færri tré og aðgangur að grænum svæðum lakari en annars staðar á Norðurlöndum. Aðeins 40% íslenskra bygginga uppfylla viðmiðið um að hægt sé að sjá þrjú stór tré frá þeim, á meðan hlutfallið er á bilinu 70–97% í hinum Norðurlöndunum. Laufþekjan í íslensku þéttbýli er líka hverfandi lítil: aðeins 4% íslenskra bygginga eru í hverfum þar sem laufþekjan nær 30%, samanborið við 92% í Finnlandi, 80% í Svíþjóð og 19% í Færeyjum. Að sama skapi þurfa Íslendingar að jafnaði að fara 328 metra til að komast á vandað grænt útivistarsvæði, á meðan vegalengdin er einungis 23 metrar í Finnlandi, 27 metrar í Svíþjóð og 61 metri í Danmörku.

Hér er tækifæri til að gera mikilvægar úrbætur. Skýrslan setur fram fjölmargar gagnlegar tillögur. Til dæmis þarf að tryggja að trjágróður og græn svæði víki ekki fyrir þéttingu byggðar. Í nýbyggingum ætti að vera fullnægjandi laufþekja og gott aðgengi að grænum svæðum. Einnig er brýnt að varðveita og hlúa að þeim trjám sem fyrir eru í borgarlandslaginu, sérstaklega eldri trjám, enda veita þau mun meiri vistkerfisþjónustu en smærri tré.

Kannski eru þó mikilvægustu tilmælin þau sem snúa að skipulagi og framtíðarsýn – að „flétta trjáræktarstefnu inn í almenna skipulags- og þróunarstefnu í þéttbýli.“

Þetta er markmið sem allt áhugafólk um skógrækt, umhverfismál, lýðheilsu og gott borgarlíf ætti að geta sameinast um. Trjáræktarstefna ætti að vera lykilþáttur í skipulagi og uppbyggingu þéttbýlissvæða – svo að daglegt umhverfi okkar snúist ekki einungis um steypu heldur einnig gróður og gleði. Það líður öllum betur í grónu umhverfi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Græn borg

Auður Elva Kjartansdóttir skrifar

Sjá meira


×