Innherji

Fram­taks­sjóðurinn IS Haf festir kaup á meiri­hluta í sænsku tækni­fyrir­tæki

Hörður Ægisson skrifar
Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf, og Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, en hann situr í fjárfestingarráði sjóðsins.
Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf, og Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, en hann situr í fjárfestingarráði sjóðsins.

Sérhæfður fjárfestingarsjóður í haftengdri starfsemi hefur náð samkomulagi um að kaupa meirihluta í sænska félaginu NP Innovation, tæknifyrirtæki með vatnsgæðalausnir fyrir landeldi og velti yfir tveimur milljörðum í fyrra, en þetta er önnur erlenda fjárfesting sjóðsins á innan við ári. Með innkomu IS Haf-sjóðsins sem kjölfestufjárfestir í NP Innovation er ætlunin að hraða enn frekari vexti félagsins á komandi árum.

Félagið NP Innovation, stofnað árið 2011 af Nils-Åke Persson, er með höfuðstöðvar og nýsköpunarsetur í Malmö, Svíþjóð. Jafnframt er það með sölu- og þjónustu skrifstofur í Noregi og á Íslandi. Félagið gegnir lykilhlutverki í ört vaxandi hluta laxeldisiðnaðar, meðal annars uppbyggingu landeldis og stórseiðaframleiðslu.

Í tilkynningu frá IS Haf, tíu milljarða sjóður í rekstri Íslandssjóða sem fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni, kemur fram að NP hafi náð miklum vexti undanfarin misseri og telur fjárfestingateymi sjóðsins félagið geta náð leiðandi stöðu á heimsvísu í vatnsgæðalausnum fyrir fiskeldi. Fjárfestingin er liður í frekari innri og ytri vaxtaráformum félagsins. Vöxtur tekna félagsins hefur verið um 30 prósent að meðaltali á ári (CAGR) síðustu fjögur árin og námu heildartekjur þess um 2,3 milljörðum króna árið 2024.

Með innkomu IS Haf sem kjölfestufjárfestis, munum við enn frekar styrkja stöðu okkar á lykilmörkuðum, hraða vexti félagsins, þar sem NP getur veitt fjölbreyttara vöru- og þjónustuframboð við landeldi á heimsvísu.

Helstu viðskiptavinir eru seiðaeldi, stórseiðaeldi og áframeldi en NP selur einnig vatnshreinsilausnir til brunnbátaþjónustu, sveitarfélaga og annars iðnaðar. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins á Íslandi en ekki er greint frá kaupverðinu.

Michael Bäärnhielm, forstjóri NP Innovation.

Þetta er fjórða fjárfesting IS Haf frá því að sjóðurinn var settur á fót snemma árs 2023 en hann hefur áður komið að kaupum í KAPP, Thor Landeldi og norska líftæknifyrirtækinu Regenics. Helstu hluthafar framtakssjóðsins eru Útgerðarfélag Reykjavíkur, Brim og lífeyrissjóðirnir Birta, LSR og Frjálsi.

Stærsti seljandinn í viðskiptunum er Broodstock Captial, norskt fjárfestingafélag með sérhæfingu í sjávarútvegi og fiskeldi. Broodstock fjárfesti í NP árið 2018 og hefur leitt vöxt félagsins í samvinnu við Nils-Åke, stofnanda þess, og munu þeir, ásamt lykilstarfsfólki, endurfjárfesta í félaginu. Þá mun norska fjárfestingafélagið Broodstock áfram vera með mann í stjórn NP.

Michael Bäärnhielm, forstjóri NP Innovation, segir viðskiptin marka mikilvæg tímamót fyrir fyrirtækið og sé náttúrulegt næsta skref í vegferð til vaxtar. „Með innkomu IS Haf sem kjölfestufjárfestis, munum við enn frekar styrkja stöðu okkar á lykilmörkuðum, hraða vexti félagsins, þar sem NP getur veitt fjölbreyttara vöru- og þjónustuframboð við landeldi á heimsvísu.“

Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf-sjóðsins, bætir við að veruleg tækifæri liggi í því öfluga forskoti sem NP hefur náð í framþróun vatnsgæðalausna fyrir landeldi.

„NP hefur á afburða teymi að skipa með sérhæfða þekkingu og hefur alla burði til að vaxa hratt og verða leiðandi í lausnum og þjónustu við landeldi á heimsvísu. Kaup á NP er í samræmi við fjárfestingarstefnu IS Haf og mun aðkoma sjóðsins styðja við metnaðarfull vaxtaráform NP og verðmætasköpun og sjálfbærni í vaxandi grein landeldis.“

Þá er haft eftir Runólfi Viðari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Reykjavíkur, að NP Innovation hafi víðtæka sérfræðiþekkingu og framúrskarandi lausnir sem styðja við öll stig framleiðslu í landi, frá seiðaeldi, stórseiðaeldi og áframeldis á laxi. „Meginmarkaðurinn hefur verið Noregur síðustu ár, en félagið hefur verið að stíga skref inn á nýja markaði landfræðilega og í öðrum tegundum sjávarafurða,“ segir Runólfur.

Ráðgjafar kaupanda í viðskiptunum eru Deloitte á Íslandi og í Svíþjóð og ARMA Advisory. Haavind og BBA//Fjeldco eru ráðgjafar seljenda í viðskiptunum.

Innherji greindi fyrst frá stofnun IS Haf í marsmánuði 2023 en í krafti meðfjárfestinga hluthafa og annarra fjárfesta er áætlað að fjárfestingageta sjóðsins verði á bilinu 30 til 50 milljarðar. Fjárfestingum hans verður dreift meðal fimm flokka innan haftengdrar starfsemi, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni. Sjóðurinn mun fjárfesta að mestu í óskráðum félögum á Íslandi eða félögum sem hafa tengingu við Ísland.


Tengdar fréttir

Setja á fót tíu milljarða sjóð sem horfir til haf­tengdra fjár­festinga

Íslandssjóðir hafa klárað fjármögnun á tíu milljarða króna sjóð sem áformar að fjárfesta í haftengdri starfsemi á breiðum grunni en fjárfestingargeta hluthafanna sem standa að baki sjóðnum nemur margfaldri stærð hans. Stærstu fjárfestarnir eru Brim og Útgerðafélag Reykjavíkur, með samanlagt yfir fjórðungshlut, ásamt íslenskum lífeyrissjóðum en að sögn forsvarsmanna sjóðsins er þörf á „miklu fjármagni“ til að virkja þá möguleika sem eru til vaxtar í íslenskum sjávarútvegi.

Klárar sína fyrstu fjár­festingu með kaupum á 40 prósenta hlut í KAPP

Sjóðurinn IS Haf, sem fjárfestir í haftengdri starfsemi, hefur gengið frá kaupum á 40 prósenta eignarhlut í tæknifyrirtækinu KAPP og mun sömuleiðis leggja félaginu til aukið hlutafé til frekari vaxtar. Þetta er fyrsta fjárfesting sjóðsins, sem er um tíu milljarðar að stærð og að stærstum hluta í eigu ÚR, Brim og lífeyrissjóða, en stjórnendur hans telja umtalsverð vaxtartækifæri vera til staðar fyrir íslensk tæknifyrirtæki í sjávarútvegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×