Í viðtali í setti hjá RÚV eftir sigurinn frækna gegn Tyrkjum á sunnudaginn síðastliðinn, sem tryggði Íslandi sæti á EM í sumar, sagði Martin frá því hvernig hann hefði allt í einu ekki fundið fyrir meiðslum í hásin sem höfðu verið að plaga hann vikurnar fyrir landsliðsverkefnið og taldi hann að lausnin gæti falist í því að hafa skipt um þá skó sem hann spilar í.
Þannig er mál með vexti að hjá félagsliði sínu Alba Berlin í Þýskalandi er Martin skyldugur til þess að spila í Adidas skóm sökum styrktar samnings fyrirtækisins við félagið.
Staðan hins vegar gjörbreytist þegar að Martin spilar með landsliðinu þar sem að hann getur spilað í Nike skóm sökum persónulegs styrktar samnings síns við það fyrirtæki.

„Það er ekkert leyndarmál. Ég hef verið í þvílíku veseni síðustu tvo til þrjá mánuði með hásinina,“ segir Martin í samtali við íþróttadeild. „Búinn að fara í endalaust af sprautum, myndatökur, hitta sérfræðinga og það gat enginn útskýrt af hverju þetta var að gerast. Þetta var bara einn punktur á hásininni, því hásinin sjálf var í frábærum málum. Bara einhver vökvi sem var að safnast saman þarna á einum stað og enginn skildi af hverju.
Fyrir svona tveimur vikum síðan skipti ég um skó, hef verið í Nike skónum mínum í þessu landsliðsverkefni og ekki fundið fyrir neinu. Vonandi er þetta bara útskýringin en væri á sama tíma alveg galið. Að vera búinn að spila í þrjá mánuði að drepast en hefði bara þurft að skipta um skó. Reglan er þannig að ég þarf að spila í Adidas skóm með félagsliði mínu þar sem að liðið er með styrktar samning við Adidas. Samningurinn er þannig að ég hef ekkert val. En Nike-ið mitt, ég myndi ekki skipta því út fyrir neitt annað. Nike gerir kraftaverk.“
Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu hjá Martin úti í Þýskalandi með Alba Berlin í Adidas skónum og hvort að hann fari að finna til í hásininni aftur. Næsti leikur liðsins er í Euroleague á föstudaginn næstkomandi.