Búið er að mata ofurtölvuna með öllum helstu gögnum og eftir 10.000 keyrslur er niðurstaðan sú að Liverpool sé líklegast til að vinna keppnina.
Það þarf ekki að koma á óvart enda varð Liverpool efst í deildarkeppni Meistaradeildarinnar og er jafnframt langefst í ensku úrvalsdeildinni.
Opta segir 19,2% líkur á að Liverpool verði Evrópumeistari en telur vissulega að stór hindrun sé í vegi liðsins núna í 16-liða úrslitunum, en einvígið við PSG hefst á morgun. Opta segir 58,3% líkur á að Liverpool slái PSG út en að það séu 49% líkur á að Liverpool komist í undanúrslit og 30,9% líkur á að liðið komist í úrslitaleikinn.

Barcelona þykir næstlíklegast til að verða Evrópumeistari og Inter er þar skammt á eftir. Arsenal er svo í 4. sæti með 11,6% líkur á að verða Evrópumeistari, fyrir ofan ríkjandi Evrópumeistara Real Madrid sem þó slógu Manchester City út með sannfærandi hætti.
Lille, lið Hákonar Arnars Haraldssonar, og Dortmund eru talin álíka líkleg til að ná árangri í keppninni en þau mætast í 16-liða úrslitunum í kvöld.

Það spilar auðvitað inn í niðurstöður Opta hvaða leið liðin hafa fengið að úrslitaleik keppninnar en búið er að draga um hvaða lið geta mæst í 8-liða úrslitunum og undanúrslitunum. Til að mynda er ljóst að Barcelona getur ekki mætt Liverpool, Arsenal eða Real Madrid fyrr en mögulega í úrslitaleik.