Formúla 1

Lofaði Hamilton að ræða ekki við Ver­stappen

Aron Guðmundsson skrifar
Það kemur ýmislegt upp á yfirborðið í nýjustu þáttaröð Drive to Survive heimildaþáttaraðarinnar
Það kemur ýmislegt upp á yfirborðið í nýjustu þáttaröð Drive to Survive heimildaþáttaraðarinnar Vísir/Samsett mynd

Toto Wolff, liðs­stjóri For­múlu 1 liðs Mercedes, gaf sjöfalda heims­meistaranum Lewis Hamilton lof­orð þess efnis að hann myndi ekki reyna að fá Max Ver­stappen til liðs við Mercedes frá Red Bull Ra­cing á meðan að Bretinn væri öku­maður liðsins.

Þetta kemur fram í nýjustu þáttaröð Dri­ve to Survi­ve heimildarþáttanna sem verður að­gengi­leg á streymis­veitu Net­flix frá og með föstu­deginum næst­komandi. Sky Sports hefur fengið að sjá þættina og greinir frá um­ræddu at­viki.

Hamilton og Ver­stappen hafa eldað grátt silfur saman í gegnum tíðina, baráttan þeirra á milli náði há­marki árið 2021 þar sem að Ver­stappen tryggði sér sinn fyrsta heims­meistara­titil á mjög svo vafa­saman hátt á loka­hringnum í síðasta kapp­akstri tíma­bilsins í Abu Dhabi.

Hamilton var þar hárs­breidd frá því að tryggja sér sinn áttunda heims­meistara­titil á ferlinum sem hefði séð hann komast á toppinn á lista yfir þá ökuþóra sem hafa unnið flesta heims­meistara­titla.

Nýjasta þáttaröð Dri­ve to Survi­ve tekur mið af síðasta tíma­bili í For­múlu 1 sem var jafn­framt síðasta tíma­bil Hamilton hjá Mercedes. Hann er nú genginn til liðs við ítalska risann Ferrari, skipti sem vöktu at­hygli á heims­vísu svo vægt sé til orða tekið.

Í einum þáttanna í nýjustu þáttaröð Dri­ve to Survi­ve er skyggnst á bak við tjöldin þar sem að Toto Wolff ræðir það við eigin­konu sína Susi­e Wolff hvern hann eigi að fá inn í stað Hamilton hjá Mercedes við hlið Geor­ge Rus­sell eftir að greint var frá skiptum Bretans til Ferrari.

Eftir að nöfn ökuþóra á borð við Car­los Sainz og Fernando Alon­so hafði borið á góma var röðin komin að Ver­stappen:

„Ég hef ekki talað við hann því ég lofaði Hamilton að tala ekki við hann,“ sagði Wolff. „En ég mun eiga það sam­tal núna.“

Vitað er að forráða­menn Mercedes fóru í viðræður við Ver­stappen sem ekkert varð á endanum úr. Þess í stað var ákveðið að veðja á hinn ungan og efni­legan Ítala að nafni Kimi Antonelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×