Þetta var niðurstaða Landsréttar, sem kvað upp dóm í málinu klukkan 15. Dóminn má lesa hér.
Næsta skref að smíða bótakröfu
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs, segir niðurstöðu í málinu fullnaðarsigur. Næstu skref umbjóðanda hans séu að smíða bótakröfu á hendur ríkinu.
Ertu með einhverja tölu í huga?
„Það verður hærra en sjö stafa tala“
Of hátt reitt til höggs
Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs, segir ákæruvaldið hafa reitt allt of hátt til höggs í málinu. Hann fagnar því að refsing mannanna hafi verið lækkuð hvað vopnalagabrotin varðar og að þeim hafi verið gert að greiða minni hluta málsvarnarlaunanna. Vörnin hafi lagt upp með það.
Tvöfaldur sigur
Sindri Snær og Ísidór voru sýknaðir af ákæru fyrir hryðjuverk í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars í fyrra en sakfelldir fyrir vopnalagabrot og dæmdir í 24 og átján mánaða fangelsi. Um var að ræða aðra ákæru á hendur þeim fyrir tilraun til hryðjuverka eftir að fyrri ákæru hafði verið vísað frá héraðsdómi.
Í dómi héraðsdóms sagði að rétturinn teldi einhverjar líkur á því að Sindri hefði haft einhvers konar illvirki í huga, þó ekki lægi fyrir hvers eðlis sá verknaður væri. Hann hefði einnig átt erfitt með að útskýra ýmsar athafnir sínar.
Hins vegar hefði ákæruvaldinu ekki tekist að sanna það að hann hafi ætlað að fremja hryðjuverk. Þar sem það hefi ekki verið sannað bæri að sýkna Sindra Snæ af ákæru fyrir tilraun til hryðjuverka og Ísidór fyrir hlutdeild í ætlaðri tilraun.
Ríkissaksóknari ákvað að áfrýja dóminum og krafðist þess fyrir Landsrétti að mennirnir yrðu sakfelldir og dæmdir til refsingar fyrir hina ætluðu tilraun til hryðjuverka. Þá krafðist Ríkissaksóknari þess að refsing vegna vopnalagabrotsins yrði staðfest.