Erlent

Danir til­búnir að senda friðargæsluliða

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Engar raunverulegar framkvæmdaáætlanir liggja fyrir.
Engar raunverulegar framkvæmdaáætlanir liggja fyrir. EPA

Danir eru tilbúnir að senda friðargæsluliða til Úkraínu náist samkomulag um vopnahlé við Rússland. Engar raunverulegar áætlanir liggja fyrir um framkvæmd þess þó að sögn utanríkisráðherra.

Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra og Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra tilkynntu þetta eftir fund með utanríkisnefnd þingsins. Þar gerðu þeir grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar og hlutu stuðning þingsins.

„Það er mikilvægt að við í Evrópum sendum rétt skilaboð bæði til Pútíns og Washington. Það er það sem við gerum með því að segja: Komi til þess að evrópsk viðvera verði nauðsynlegt til að hægt verði að koma á samkomulagi um vopnahlé eða friðarviðræður er Danmörk tilbúin í þeim efnum,“ hefur danska ríkisútvarpið eftir Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra.

Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra segist ekki sjá fyrir sér að Atlantshafsbandalagið komi til með að taka af skarið og senda friðargæsluliða að landamærunum heldur muni fjöldi einstakra landa ákveða að sýna stuðning sinn með þessum sama hætti og Danmörk.

„Ég held að allir hafi áttað sig á því að Bandaríkjaforseti vilji að stríðinu ljúki hratt. Enginn óskar þess heitar en Úkraína. Við óskum þess einnig. En því skal ljúka á réttan hátt,“ segir Lars Løkke Rasmussen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×