Íslenski boltinn

Besta-spáin 2025: Með­vindur þrátt fyrir mót­byr

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Fram 8. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brasilíumaðurinn Fred hefur leikið með Fram frá 2018 og verið einn besti leikmaður liðsins síðan þá. vísir/diego

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir Fram 8. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Íslandsmeistara Breiðabliks og Aftureldingar laugardaginn 5. apríl.

Íþróttadeild spáir Fram 8. sæti Bestu deildarinnar í sumar og liðið fari upp um eitt sæti frá því í fyrra.

Handbragð Rúnars Kristinssonar var ekki lengi að sjást á Fram-liðinu eftir að hann tók við liðinu þarsíðasta haust. Rúnar breytti í þriggja manna vörn og Framarar fóru loksins að spila vörn. Og framan af gekk allt vel. Eftir sautján umferðir sat Fram í 5. sæti deildarinnar og hafði aðeins fengið á sig 22 mörk. En svo fór allt í steik.

Eftir að hafa stýrt KR í lengri tíma tók Rúnar Kristinsson við Fram fyrir síðasta tímabil.vísir/diego

Fram fékk aðeins eitt stig í síðustu fimm leikjunum í hefðbundinni deildarkeppni og komst ekki í úrslitakeppni efri hlutans. Fram vann Fylki í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni neðri hlutans en tapaði síðustu fjórum leikjunum. Í síðustu tíu leikjum sínum í Bestu deildinni vann Fram aðeins einn sigur, gerði eitt jafntefli, tapaði átta leikjum og fékk á sig 27 mörk.

grafík/bjarki

Ýmsar ástæður eru fyrir því af hverju það fjaraði svona hressilega undan Fram-liðinu þegar tók að hausta. Ein þeirra var fjarvera bandaríska miðvarðarins Kyles McLagan. Hann spilaði ekkert í síðustu átta leikjunum og Fram vann aðeins einn af þeim níu leikjum sem hann missti af síðasta sumar.

McLagan, Kennie Chopart og Þorri Stefán Þorbjörnsson mynduðu sterka varnarþrenningu en um leið og einhver þeirra datt út stórsá á liðinu. Þá missti Már Ægisson, sem hafði spilað vel í hinum ýmsu stöðum, einnig af síðustu tíu leikjunum vegna náms í Bandaríkjunum. Hann verður hins vegar með Fram í allt sumar.

grafík/bjarki

Í vetur hefur Fram aðallega fengið leikmenn úr Lengjudeildinni en einnig þrjá erlenda leikmenn og Vuk Oskar Dimitrijevic frá FH sem fær núna enn eitt tækifærið til að springa út í efstu deild. Breiddin, sem var ekki mikil hjá Fram í fyrra, hefur aukist talsvert og Rúnar vonast væntanlega til að hrakfarirnar undir lok síðasta tímabils endurtaki sig ekki þegar fer að síga í seinni hluta sumars.

grafík/bjarki

Fram hefur litið ágætlega út í vetur og vann meðal annars Íslandsmeistara Breiðabliks í Lengjubikarnum. Liðið er núna á öðru ári hjá Rúnari og þrátt fyrir slæman endi á síðasta tímabili er vindur í segl Framara. Þeir búa enn að því að vera með einn mest skapandi leikmann deildarinnar, Brassann Fred, sem lagði upp ellefu mörk á síðasta tímabili og bar hitann og þungann af sóknarleik liðsins.

Honum veitir samt ekki af meiri hjálp og í þeim efnum horfa Framarar væntanlega helst til Vuks, sænska framherjans Jakobs Byström og Guðmundar Magnússonar. Þá skilaði hægri bakvörðurinn Alex Freyr Elísson óvæntu sóknarframlagi í fyrra og var markahæsti leikmaður Fram ásamt Guðmundi. Báðir skoruðu þeir sex mörk.

Guðmundur Magnússon hefur verið markahæsti leikmaður Fram undanfarin ár.vísir/diego

Afar litlar líkur eru á því að Framarar dýfi tánum í botnbaráttuna en það er sömuleiðis frekar erfitt að sjá liðið fara í úrslitakeppni efri hlutans. Fram verður væntanlega á svipuðum slóðum og í fyrra en stuðningsmenn liðsins vilja þó eflaust hafa örina frekar gula en rauða.


Tengdar fréttir






×