Íslenski boltinn

Besta-spáin 2025: Að finna sér nýjan sama­stað í til­verunni

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir FH 7. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björn Daníel Sverrisson lék vel fyrir FH á síðasta tímabili og skoraði átta mörk í Bestu deildinni. vísir/anton

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir FH 7. sæti Bestu deildar karla í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Bestu deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Íslandsmeistara Breiðabliks og Aftureldingar laugardaginn 5. apríl.

Íþróttadeild spáir FH 7. sæti Bestu deildarinnar í sumar og Hafnfirðingar endi einu sæti neðar en á síðasta tímabili.

Byrjum á því jákvæða. Kjartan Kári Halldórsson skrifaði undir nýjan samning við FH þrátt áhuga annarra liða. Hann var besti leikmaður liðsins á síðasta tímabili ásamt Birni Daníel Sverrissyni; skoraði átta mörk og lagði upp níu. En ef frá er talin staðfesta Kjartans Kára hafa jákvæðu fréttirnar úr Kaplakrika á undirbúningstímabilinu verið heldur fáar.

Heimir Guðjónsson tók aftur við FH haustið 2022.vísir/diego

Logi Hrafn Róbertsson og Ólafur Guðmundsson eru farnir í atvinnumennsku og munar um minna. Ísak Óli Ólafsson er meiddur og FH-liðið er nánast miðvarðalaust korteri í mót. Eins og staðan er núna gæti verið að bakverðirnir Jóhann Ægir Arnarsson og Böðvar Böðvarsson standi vaktina í miðri vörninni í fyrsta leiknum gegn Stjörnunni mánudaginn 7. apríl. 

grafík/bjarki

Birkir Valur Jónsson er kominn til að spila stöðu hægri bakvarðar og Bragi Karl Bjarkason kom svo frá ÍR en hann skoraði samtals 31 mark í Lengjudeildinni og 2. deildinni tímabilin 2023 og 2024. Spennandi verður að sjá hvernig hann plummar sig í efstu deild.

Þá hafa orðið markvarðaskipti hjá FH en Mathias Rosenörn kom frá Stjörnunni á meðan Sindri Kristinn Ólafsson fór aftur heim til Keflavíkur. Markvarslan var stærsti akkilesarhæll FH á síðasta tímabili. Tölfræðin talar sínu máli. FH „átti“ aðeins að fá á sig 35 mörk samkvæmt xG-fræðunum en fékk á sig fimmtíu í raunheimum. Þessi tölfræði verður að lagast í sumar.

grafík/bjarki

FH var í ágætis málum lengi framan af síðasta tímabili. Liðið vann leikina sem flestir bjuggust við að það myndi vinna en eftir 0-2 útisigur á Vestra í 16. umferð fór allt loft úr blöðrunni. FH-ingar unnu aðeins einn af síðustu ellefu leikjum sínum og fengu bara eitt stig í úrslitakeppni efri hlutans. FH fékk 34 stig í fyrra, sex stigum minna en tímabilið 2023, það fyrsta eftir endurkomu Heimis Guðjónssonar í Kaplakrika.

grafík/bjarki

Leikmannahópur FH veiktist eftir skiptin við KR um mitt mót - Kristján Flóki Finnbogason kom fyrir Gyrði Hrafn Guðbrandsson og Ástbjörn Þórðarson - og Hafnfirðingar máttu engan veginn við því að missa Úlf Ágúst Björnsson út í nám. Hann er liðinu gríðarlega mikilvægur. Heimavöllurinn gaf FH svo lítið í fyrra en liðið vann aðeins fjóra leiki í Kaplakrika síðasta sumar.

Dýrðardagar FH eru að baki og það er fátt sem bendir til þess að þeir séu væntanlegir aftur í bráð. Liðið er langt á eftir þeim bestu á Íslandi og þarf að sætta sig við nýjan veruleika; finna sér nýjan samastað í tilverunni. 

Kjartan Kári Halldórsson ákvað að halda tryggð við FH. Hann kom með beinum hætti að sautján mörkum á síðasta tímabili.vísir/diego

Í slíku millibilsástandi er gott að vera með traustar hendur um stýrið. Heimir er á leið inn í sitt þrettánda tímabil sem aðalþjálfari og hefur séð allt sem hægt er að sjá í bransanum. Sú reynsla gæti reynst FH mikilvæg í sumar.


Tengdar fréttir






×