Innlent

Gekk ber­serks­gang og lagði hótel­her­bergi í rúst

Jón Þór Stefánsson skrifar
Herbergið var á Hótel Stracta á Hellu.
Herbergið var á Hótel Stracta á Hellu. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið dæmdur í þrjátíu daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að ganga berserksgang á hótelherbergi á Hótel Stracta á Hellu í janúar 2023.

Í ákæru segir að maðurinn hafi lamið og sparkað í hurð hótelherbergis. Þá hafi hann velt innanstokksmunum um koll og sprautað gosdrykk á veggi og yfir gólf. Fyrir vikið hafi sjónvarp og stólar brotnað og tjón orðið á veggjum og gólfteppum.

Það var mat ákæruvaldsins að tjónið sem varð af þessu hafi hljóðað upp á 307 þúsund krónur.

Í bótakröfu hótelsins var tjónið metið 406 þúsund krónur. Annars vegar var það vegna innanstokksmuna og þrifa. Samkvæmt kröfunni eyðilögðust 43 tommu sjónvarp og tveir stólar. Þá hafi þurft að ráðast í viðgerðir á vegg. Einnig hafi þurft að þrífa bletti um loft, gólf, veggjum og á ofnum. Og þar að auki hafi þurft að þrífa ganginn, og fara í teppahreinsun.

Hins vegar var bótakrafan vegna endurgreiðslu til annarra viðskiptavina, sem virðast hafa verið í fjórum mismunandi herbergjum.

Dómurinn vísaði bótakröfunni frá dómi þar sem enginn gögn fylgdu henni.

Maðurinn mætti ekki fyrir dóm. Héraðsdómur Suðurlands taldi sannað að hann hefði gerst sekur um umrædda háttsemi. Líkt og áður segir var hann dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×