Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú hvernig karlmanni á sjötugsaldri, búsetuum í Ölfusi, var ráðinn bani fyrir tveimur vikum. Tveimur konum, sem setið höfðu í gæsluvarðhaldi, var sleppt í gær. Eftir sitja fjórir karlar og ein kona í varðhaldi.
Fór fram á styttingu
Sævar Þór Jónsson er lögmaður 18 ára manns sem situr í einangrunarvarðhaldi.
„Minn umbjóðandi var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 16. apríl. Ég kærði það til Landsréttar og gerði kröfu um að sá tími yrði styttur. Landsréttur féllst á að úrskurða hann í gæsluvarðhald til 2. apríl,“ segir Sævar Þór í samtali við fréttastofu. Úrskurðurinn var kveðinn upp síðastliðinn föstudag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Stefáni Blackburn einnig styttur í Landsrétti, einnig um tvær vikur.
Mikilvægt að lögregla vinni hratt
Sævar segist ekki telja að fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir umbjóðanda hans hefði verið réttlætanlegt.
„Rannsókn málsins er bara þess eðlis að það er kannski ekki hægt að segja hver aðild míns umbjóðanda er þannig að það réttlæti að hann sitji í gæsluvarðhaldi í þetta langan tíma. Þetta er líka mjög íþyngjandi fyrir aðila, þannig að það er mikilvægt að lögreglan hraði þessari rannsókn eins og kostur er.“
Lögregla og dómstólar beiti einangrun of glatt
Sævar segir einangrun sérstaklega íþyngjandi í ljósi ungs aldurs umbjóðanda hans, sem er 18 ára.
„Ég alltaf svolítið á móti því að það sé verið að beita þessu úrræði varðandi gæsluvarðhald, það er að segja einangrun. Þetta er ákveðið þvingunarúrræði að mínu mati, og það er mitt mat að þessu úrræði sé beitt allt of frjálslega í rannsóknum mála. Ég tel að það þurfi að fara mjög gætilegar í þær sakir. Mér finnst dómstólar líka vera allt of gjarnir á að samþykkja gæsluvarðhald í einangrun. Það er bara mitt mat.“
Hann segist þó hafa skilning á því að rannsókn málsins, sem sé víðfemt, sé á frumstigi.
„Engu að síður tel ég að gögn málsins séu þannig að lögreglan ætti nú að geta verið búin að móta sér einhverja skoðun á aðild manna í þessu máli.“
Uppfært klukkan 19:03: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar kom fram að gæsluvarðhald yfir einum hinna grunuðu hefði verið stytt. Fréttin var uppfærð með upplýsingum um að svo hefði einnig verið í tilfelli Stefáns.