Íslenski boltinn

„Maður er pínu hræddur fyrir þeirra hönd“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH-ingar misstu dampinn undir lok síðasta tímabils.
FH-ingar misstu dampinn undir lok síðasta tímabils. vísir/diego

Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar, telur að FH verði í baráttu um að halda sér í efri hluta Bestu deildar karla. Varnarleikur liðsins þurfi að lagast frá síðasta tímabili.

FH er spáð 7. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2. FH-ingar enduðu í 6. sæti á síðasta tímabili.

„Já, þeir geta það,“ sagði Baldur, aðspurður hvort FH geti komist í úrslitakeppni efri hlutans. „Þeir gerðu það í fyrra. Þeir eru vissulega búnir að missa menn en Heimir [Guðjónsson] er öflugur þjálfari og það sem við sáum fyrstu 16-17 umferðirnar frá FH í fyrra er merki um að hann nær til leikmannanna og hann, sem góður þjálfari, áttar hann sig alltaf á hvað hann er með í höndunum og hvernig þeir eiga að spila. Vissulega er hópurinn ungur og þeir eru búnir að missa góða menn og þetta getur brugðið til beggja vona. Maður er pínu hræddur fyrir þeirra hönd.“

Klippa: 7. sæti FH

Baldur segir að FH hafi dregist aftur úr sterkustu liðum landsins.

„Já, ég held það. Miðað við úrslitin í vetur, það sem við getum miðað við. Leikmennina sem eru farnir og þeirra sem eru komnir hef ég smá áhyggjur af því,“ sagði Baldur. 

„Núna er það bara hlutverk þessara ungu leikmanna sem eru í liðinu; þeir þurfa að stíga hratt upp. Aðaláhyggjuefnið er að þeir nái að skrúfa fyrir varnarleikinn. Það vantar hafsent. Úlfur [Ágúst Björnsson] kemur til baka en fleiri þurfa að taka þátt í að skora mörk.“

FH mætir Stjörnunni í Garðabæ í fyrsta leik sínum í Bestu deildinni mánudaginn 7. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×