Samningar starfsmanna Norðuráls runnu út um áramótin. Í tilkynningu á vefsíðu Verkalýðsfélags Akraness kemur fram að ekkert sé að frétta af deilunni og að lítinn vilja sé að merkja af hálfu fyrirtækisins til þess að ganga frá nýjum samningi.
Ekkert annað sé því í stöðunni en að nýta fyrsta tækifæri til þess að kjósa um vinnustöðvun. Formaður félagsins hafi kynnt á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær að hafin yrði undirbúningur að atkvæðagreiðslu um verkfall sem stefnt væri á að halda á fimmtudag í næstu viku.
„Þetta er öflugt útflutningsfyrirtæki sem hefur skilað góðri afkomu í gegnum tíðina og því mikilvægt að fyrirtæki af þessari stærðargráðu sýni vilja til að ganga hratt, vel og örugglega frá launabreytingum til handa sínu starfsfólki,“ segir í tilkynningunni.